Íslendingum bannað að vera með trommur í stúkunni

Íslendingarnir fengu ekki að fara með trommurnar inn í höllina.
Íslendingarnir fengu ekki að fara með trommurnar inn í höllina. mbl.is/Kristinn Magnusson

Stuðningsmenn Íslands fá ekki að fara með trommur í stúkunni í Scandinavium-höllinni í Gautaborg, þar sem íslenska karlalandsliðið í handbolta leikur í milliriðli á HM.

„Sænska sambandið ætlar ekki að leyfa okkur að vera með trommur í stúkunni til að draga úr stuðningi Íslendinga í höllinni í Gautaborg,“ sagði Gauti Sigurgeirsson, meðlimur í Sérsveitinni, stuðningsmannahópi íslenska liðsins.

„Við höldum okkar plani, förum inn í höllina og gerum allt sem við getum til að styðja íslenska landsliðið, hvort sem við erum með trommur eða ekki. Það skýtur skökku við að það skyldi allt í einu núna vera bannað að vera með hljóðfæri,“ bætti hann við.

Trommurnar voru gerðar upptækar og settar upp á svalir.
Trommurnar voru gerðar upptækar og settar upp á svalir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gauti og aðrir Íslendingar voru ánægðir með móttökurnar í Kristianstad, þar sem Ísland lék í riðlakeppninni, en móttökurnar eru öðruvísi í Gautaborg.

„Það var gríðarlega vel tekið á móti okkur í Kristianstad, sem er frábær borg. Við fengum að gera allt sem við vildum og það gekk vel, en það virðist vera öðruvísi í Gautaborg.

Við fáum ekki að fara með nein hljóðfæri inn þegar við mætum Svíunum. Þetta hefur vissulega áhrif, þar sem stuðningurinn stjórnast af þessu. Við notum bara hendurnar og röddina í staðinn,“ sagði Gauti.

Uppfært: Íslendingar fá að vera með nokkrar trommur í höllinni en aðeins upp á einum svölum en ekki í stúkunni sjálfri. 

mbl.is