Von Íslands orðin afar veik

Ísland á litla möguleika á að fara áfram í átta liða úrslit á HM karla í handbolta eftir 30:35-tap fyrir Svíþjóð í öðrum leik liðsins í milliriðli II í Gautaborg í kvöld.

Ísland þarf að vinna Brasilíu í lokaleik riðilsins og treysta á að Ungverjaland misstígi sig gríðarlega óvænt gegn Grænhöfðaeyjum og að Portúgal vinni ekki Svíþjóð.

Svíþjóð byrjaði betur og komst í 3:1 í byrjun leiks. Svíar héldu yfirhöndinni næstu mínútur og voru þremur mörkum yfir þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður, 10:7.

Þá kom Viktor Gísli Hallgrímsson í markið í staðinn fyrir Björgvin Pál Gústavsson og við það bættist leikur Íslands töluvert, því staðan var orðin 11:11 aðeins nokkrum mínútum síðar.

Ísland hélt áfram að keyra vel á sænska liðið og náði mest þriggja marka forskoti í fyrri hálfleik, 15:12.

Sænska liðið er hins vegar gríðarlega gott og með næstu fjórum mörkum voru heimamenn komnir yfir, 16:15. Að lokum var sænska liðið einu marki yfir í hálfleik, 17:16.

Svíþjóð byrjaði seinni hálfleikinn miklu betur, því eftir fimm mínútur í honum var staðan orðin 20:16.

Eftir það var Ísland að elta allan seinni hálfleikinn og var staðan 26:23 þegar rúmar tíu mínútur voru til leiksloka. Ísland skapaði sér þó nokkuð af góðum færum til að minnka muninn enn frekar en Andreas Palicka í marki Svía var í miklu stuði og varði oft á tíðum gríðarlega vel.

Hann dró tennurnar úr leikmönnum Íslands, sem virtust ekki hafa mikla trú á að koma boltanum framhjá honum á lokakaflanum. Að lokum var sigur heimamanna því nokkuð öruggur. 

Bjarki Már Elísson var markahæstur í íslenska liðinu með átta mörk og Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði fimm. Kristján Örn Kristjánsson gerði fjögur. Viktor Gísli Hallgrímsson varði 12 skot í markinu.

Lokaleikur Íslands er gegn Brasilíu næstkomandi sunnudag.

Synir Íslands eru vefþættir sem framleiddir eru af Studio M en í þáttunum eru lykilmenn íslenska liðsins heimsóttir. Hægt er að horfa á þættina með því að smella hér.

Svíþjóð 35:30 Ísland opna loka
60. mín. Kristján Örn Kristjánsson (Ísland) skoraði mark
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert