Ísland endanlega úr leik

Adrian Sipos fagnar eftir leik.
Adrian Sipos fagnar eftir leik. mbl.is/Kristinn Magnusson

Ísland er endanlega úr leik í baráttunni um sæti í átta liða úrslitum heimsmeistaramóts karla í handbolta eftir 42:30-sigur Ungverjalands á Grænhöfðaeyjum í milliriðli II á HM í Gautaborg í dag.

Úrslitin þýða að annað hvort Ungverjaland eða Portúgal fylgir Svíþjóð í útsláttarkeppnina.

Ungverjar voru sáttir í leikslok.
Ungverjar voru sáttir í leikslok. mbl.is/Kristinn Magnusson

Mikið var skorað í byrjun og staðan eftir fjórar mínútur var 4:2, Ungverjum í hag. Þeir skoruðu áfram mark á mínútu og staðan var 7:4 eftir sjö mínútur.

Grænhöfðaeyjar minnkuðu muninn í 7:5 en Ungverjar svöruðu því og staðan var 11:5 eftir 14  mínútur, 13:7 eftir 18 mínútur og 17:10 eftir 22 mínútur.

Bendeguz Boka sækir að marki Grænhöfðaeyja í dag.
Bendeguz Boka sækir að marki Grænhöfðaeyja í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Staðan í hálfleik var 22:15, Ungverjum í hag, og fátt sem benti til þess að Afríkuþjóðin myndi hjálpa Íslandi með því að ná í stig úr þessari viðureign.

Ungverjar voru áfram með undirtökin framan af í seinni hálfleik, en Grænhöfðaeyjar minnkuðu muninn í fimm mörk snemma, 25:20. Ungverjar voru þó ekki líklegir til að láta forystuna af hendi og hafa leikinn spennandi. 

Það var hart barist í Gautaborg í dag.
Það var hart barist í Gautaborg í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ungverjar náðu aftur sjö marka forskoti þegar seinni hálfleikur var tæplega hálfnaður, 29:22, og fyrir löngu ljóst hvort liðið færi með sigur af hólmi og hver örlög Íslands yrðu. 

Pedro Rodriguez Alvarez sækir að marki Grænhöfðaeyja í dag.
Pedro Rodriguez Alvarez sækir að marki Grænhöfðaeyja í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ungverjaland hélt áfram að bæta í forskotið, sem var orðið níu mörk þegar fimm mínútur voru til leiksloka, 37:28. Að lokum munaði tólf mörkum á liðunum. 

Miklos Rosta og Richard Bodo skoruðu sjö mörk hvor fyrir Ungverjaland. Bruno Landim skoraði átta fyrir Grænhöfðaeyjar. 

mbl.is