Tileinkaði Aroni sigurinn: „Þeir sem skilja handbolta sjá hvað hann gerir fyrir okkur“

Aron Pálmarsson og Bjarki Már Elísson slá á létta strengi …
Aron Pálmarsson og Bjarki Már Elísson slá á létta strengi fyrir leik Íslands gegn Grænhöfðaeyjum í síðustu viku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarki Már Elísson var markahæsti leikmaður Íslands í 41:37-sigri á Brasilíu í lokaleik milliriðils 2 á HM 2023 í handknattleik í kvöld.

Bjarki Már skoraði níu mörk og átti þar með stóran þátt í góðum endurkomusigri. Eftir leikinn vildi hann þó tileinka fyrirliða Íslands sigurinn.

„Mig langar að tileinka þennan sigur fyrirliðanum okkar, Aroni Pálmars. Ég finn alveg hrikalega mikið til með honum. Ég þekki hann og hef gert mjög lengi og veit að hann gerði allt til þess að vera klár í þetta mót en hann lendir svo í þessu ömurlega kálfaveseni sem hann hefur verið í. Það er bara svekkjandi.

Bjarka Má og Aroni er vel til vina.
Bjarka Má og Aroni er vel til vina. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þó að hann hafi kannski átt eitthvað inni sóknarlega í þessu móti þá er nærvera hans svo mikilvæg, að hafa hann á vellinum. Þeir sem skilja handbolta sjá hvað hann gerir mikið fyrir okkur í sókn með því að draga menn í sig og losa boltann.

Svo er hann náttúrlega heimsklassavarnarmaður og var frábær í vörn á þessu móti þrátt fyrir að ég hafi lesið einhverja þvælu um eitthvað annað í síðustu viku. Ég tileinka honum sigurinn,“ sagði Bjarki Már í samtali við mbl.is.

Alveg sama um umfjöllunina

Aron meiddist á kálfa og lék því ekki gegn Svíþjóð á föstudagskvöld og ekki heldur gegn Brasilíu í kvöld. Spurður hvort honum þætti Aron hafa fengið ósanngjarna umfjöllun sagði Bjarki Már:

„Já mér finnst það en það er ekki það sem ég er að tala um, mér er alveg sama um þessa umfjöllun en þetta er svekkjandi fyrir hann því ég veit hvað hann var búinn að leggja mikið á sig.

Ég var búinn að vera í sambandi við hann og hann var búinn að gera allt rétt en stundum fylgir líkaminn bara ekki með og þá er ekkert við því að gera, en ég finn hrikalega til með honum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert