Ísland þarf að treysta á Holland og Barein

Íslensku leikmennirnir þakka áhorfendum fyrir sig eftir sigurinn á Brasilíu …
Íslensku leikmennirnir þakka áhorfendum fyrir sig eftir sigurinn á Brasilíu í gær. Í kvöld ræðst endanlega sæti Íslands á mótinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik á enn möguleika á að enda í 10. sæti á heimsmeistaramótinu en það sæti gæti gefið liðinu keppnisrétt í undankeppni Ólympíuleikanna 2024.

Liðin fjögur sem enda í þriðja sæti milliriðlanna fjögurra raðast í sæti níu til tólf eftir árangri. Þegar er ljóst að Ísland nær ekki níunda sætinu þar sem Slóvenía fékk jafnmörg stig og Ísland í milliriðli eitt, sex talsins, og er með betri markatölu.

Það ræðst í leikjum kvöldsins þegar keppni í milliriðlum þrjú og fjögur lýkur hvort Ísland endar í 10., 11. eða 12. sæti mótsins.

Serbía getur farið upp fyrir Ísland með því að sigra Holland í lokaumferð milliriðils þrjú. Liðin eru bæði með fjögur stig. Serbar yrðu fyrir ofan Ísland á markatölu með sigri en Hollendingar þurfa átta marka sigur til að ná betri árangri en Ísland. Jafntefli eða hæfilegur hollenskur sigur eru því úrslitin sem henta íslenska liðinu.

Í milliriðli fjögur mætast Króatía og Barein í úrslitaleik um þriðja sætið en Króatía er með fimm stig og Barein fjögur. Jafntefli dugar Króötum til að ná þriðja sætinu og þá yrðu þeir fyrir ofan Ísland á markatölu. Barein, undir stjórn Arons Kristjánssonar, þarf að vinna óvæntan sigur til að koma Íslandi til aðstoðar.

Króatar hafa líka að fleiru að keppa því ef þeir vinna stórsigur á Barein gætu þeir mögulega komist upp fyrir Dani og í átta liða úrslitin, ef Danir tapa leik sínum gegn Egyptum í kvöld. Þar er þó um 22 marka sveiflu að ræða og ólíklegt að Króatar geti unnið þann mun upp.

Sætið í undankeppni Ólympíuleikanna verður þó aldrei endanlega í höfn í kvöld þó hagstæð úrslit fáist því það ræðst ekki fyrr en í janúar á næsta ári, eftir EM í Þýskalandi, hvaða lið verða komin inn á Ólympíuleikana og hvaða lið komast í undankeppnina.

mbl.is