Frakkar stungu Þjóðverja af í lokin

Frakkinn Dika Mem reynir að brjótast í gegnum þýsku vörnina …
Frakkinn Dika Mem reynir að brjótast í gegnum þýsku vörnina í leiknum í kvöld. AFP/Janek Skarzynski

Frakkar urðu fjórða og síðasta liðið til að komast í undanúrslitin á heimsmeistaramóti karla í handknattleik með því að sigra Alfreð Gíslason og hans menn í liði Þýskalands í átta liða úrslitunum í Gdansk í Póllandi, 35:28.

Þjóðverjar byrjuðu betur og komust í 11:7. Frakkar jöfnuðu í 11:11 og síðan var jafnt á öllum tölum út fyrri hálfleikinn og staðan var 16:16 að honum loknum.

Þjóðverjar komust í 20:18 í seinni hálfleik en þá skoruðu Frakkar fimm mörk í röð og breyttu stöðunni í 23:20. Þeir komust í framhaldi af því fimm mörkum yfir, 29:24, og það var of mikið fyrir þýska liðið.

Nedim Remili og Ludovic Fabregas skoruðu fimm mörk hvor fyrir Frakka, Malvyn Richardson, Nicolas Tournat og Kentin Mahe fjögur hver.

Johannes Golla skoraði sex mörk fyrir Þjóðverja og Juri Knorr fimm.

Frakkar mæta því Svíum í undanúrslitunum á föstudaginn en Spánverjar mæta Dönum. Þjóðverjar mæta Egyptum í baráttunni um fimmta til áttunda sætið og Ungverjar mæta Norðmönnum.

mbl.is