Alfreð allt annað en sáttur

Alfreð Gíslason er ósáttur við skipulag heimsmeistaramótsins.
Alfreð Gíslason er ósáttur við skipulag heimsmeistaramótsins. AFP/Janek Skarzynski

Alfreð Gíslason, þjálfari þýska karlalandsliðsins í handbolta, var allt annað en sáttur eftir 28:35-tap lærisveina sinna gegn Frakklandi í átta liða úrslitum heimsmeistaramótsins í gær.

Franska liðið fékk tvo hvíldardaga fyrir leikinn, á meðan þýska liðið fékk aðeins einn. Við það var Alfreð ósáttur í viðtali við þýska ríkissjónvarpið eftir leik. 

„Þetta pirraði mig. Það er mjög mikill munur að fá tvo daga til að hvíla sig og bara einn. Við þurftum að fara í flug á meðan þeir gátu hvílt sig. Það er leiðinlegt þegar svona mót fara fram í tveimur mismunandi löndum og það hefur mun meiri áhrif á sum lið en önnur,“ sagði hann. 

Þýskaland spilar nú um sæti fimm til átta og er næsti leikur gegn Egyptalandi á morgun. „Það verður ekki létt og við þurfum aftur að ferðast. Við gefum samt allt í þann leik,“ sagði Akureyringurinn.

mbl.is