Hvar eru þessar spurningar þegar við hittumst úti á götu?

Björgvin Páll Gústavsson landsliðsmarkvörður kveðst taka fulla ábyrgð á gengi …
Björgvin Páll Gústavsson landsliðsmarkvörður kveðst taka fulla ábyrgð á gengi liðsins á HM. mbl.is/Kristinn Magnússon

Björgvin Páll Gústavsson, landsliðsmarkvörður í handknattleik, kveðst taka fulla ábyrgð á niðurstöðu landsliðsins á heimsmeistaramótinu en segir að sumar skoðanir sem settar hafi verið fram um liðið standist ekki skoðun.

Björgvin skrifaði eftirfarandi á Facebook í kvöld:

Úfff... Þá er maður búinn að melta þetta HM í nokkra daga og langar mig aðeins að pússta. Hver prófessorinn stígur nú fram með sínar útskýringar á allt og öllu. Gagnrýni sem oft er sanngjörn og snýr að boltanum en í mörgum tilvikum “skoðanir“ sem standast ekki skoðun...

Að væntingarnar hafi borið okkur ofurliði, karakterleysi, að menn séu ekki að leggja sig alla fram, krítík fyrir að fagna sigrum á slakari andstæðingum, að það taki enginn ábyrgð, leikmenn hafi ekki verið með fókusinn á réttum stað og ég veit ekki hvað.

Hvar eru þessar spurningar og skoðanir þegar við stöndum fyrir framan myndavélina eða þegar við hittumst úti á götu?

Til að svara einhverju af þessu þá... tek ég fulla ábyrgð á þessari HM niðurstöðu og er ógeðslega fúll út í sjálfan mig að hafa ekki gert betur. Ef að pressan og væntingarnar hefðu borið okkur ofurliði þá myndi ég halda að upphaf leikja, spennustig o.fl. myndi gefa slíkt til kynna en ekki slæmir kaflar í seinni hluta leikja eða leiks.

Það að halda því fram að liðið sé karakterslaust eða ekki að gefa allt... er eitthvað sem berskjaldar vanþekkingu þess sem kemur með slíkar yfirlýsingar. Það merkilegasta sem við gerum er að klæðast landsliðsbúningnum og eru menn að gefa allt sem þeir eiga. Menn eru að spila í gegnum allskonar vanlíðan, sársauka og tilfinningar.

Síðasti leikurinn var erfiður... Tómir af orku en fullir af vilja náðum við að klára það verkefni. Leituðum í orkuna frá fólkinu í stúkunni og gerðum þetta fyrir fólkið sem nennti ennþá að horfa á okkur í sjónvarpinu.

Draumurinn var ekki að syngja með fólkinu okkar „Ég er kominn heim“ eftir leikinn gegn Brasilíu en það var samt eitthvað sem ég mun aldrei gleyma.

Ef að fólk horfir á síðustu sek. í þeim leik (set það í “story”) þá sést að þarna er lið sem er að gefa ALLT fram að síðustu sek. Ég er ótrúlega stoltur að fá að tilheyra þessu liði og elska þessa gaura! ❤️

Èg tilbúinn að leggja ýmislegt á mig til þess að næsta mót sem hefst eftir 350 daga verði betra. Áfram Ísland! 🇮🇸

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert