Evrópska handknattleikssambandið, EHF, hefur tekið saman lista yfir sex leikmenn sem hafa vakið athygli fyrir góða frammistöðu sína á HM 2023 í Svíþjóð og Póllandi, sem stendur nú yfir.
Einn Íslendingur er þar á lista, Gísli Þorgeir Kristjánsson, og er hrósað í hástert sem besta alhliða leikmanni mótsins.
„Besti alhliða leikmaðurinn: Gísli Þorgeir Kristjánsson (Magdeburg/Ísland).
Ísland var slegið úr keppni að loknum milliriðlum þar sem tap fyrir Ungverjaland reyndist vendipunkturinn og það þrátt góða baráttu gegn Svíþjóð í Gautaborg í síðustu viku.
Gísli Kristjánsson stóð sig sérstaklega vel, þar sem vinstri skyttan skoraði 18 mörk og gaf 39 stoðsendingar í leikjunum sex sem hann spilaði í Svíþjóð.
Hann er þriðji atkvæðamesti leikmaður mótsins, á eftir Jim Gottfridsson og Juri Knorr,“ sagði í umsögn EHF um Gísla Þorgeir.
Aðrir leikmenn á listanum eru Egyptinn Yehia Elderaa, Daninn Mikkel Hansen, Ungverjinn Zoltan Szita, Þjóðverjinn Andreas Wolff og Svíinn Andreas Palicka.
Einnig valdi EHF lið mótsins, þar sem Bjarki Már Elísson er einn sjö leikmanna.
„Íslenska markavélin óttast engan markvörð líkt og hann sýndi enn á ný á mótinu,“ sagði í umsögn um hann.
Bjarki Már er hluti af fríðu föruneyti þar sem honum er stillt upp í vinstra horni.
Aðrir leikmenn í liði mótsins eru spænski markvörðurinn Gonzalo Pérez de Vargas, norska vinstri skyttan Sander Sagosen, franska hægri skyttan Nedim Remili, hollenski leikstjórnandinn Luc Steins, spænski hægri hornamaðurinn Kauldi Odriozola og danski línumaðurinn Lukas Jörgensen.