Alfreð stýrði Þjóðverjum til sigurs um fimmta sætið

Alfreð Gíslason, þjálfari Þýskalands.
Alfreð Gíslason, þjálfari Þýskalands. AFP/Janek Skarzynski

Þýskaland, undir handleiðslu Alfreðs Gíslasonar, tryggði sér í dag fimmta sætið á HM 2023 í handknattleik karla með því að hafa betur gegn Noregi, 28:24, í leiknum um sætið í Stokkhólmi.

Þjóðverjar mættur ákveðnir til leiks og náðu snemma þriggja marka forystu, 4:1.

Þá vöknuðu Norðmenn til lífsins og jöfnuðu í 5:5.

Aftur náði Þýskaland undirtökunum og leiddi með þremur mörkum, 16:13, í hálfleik.

Lærisveinar Alfreðs hófu síðari hálfleikinn líkt og þann fyrri, af feikna krafti og voru komnir með sex marka forystu, 20:14, þegar skammt var liðið af honum.

Þjóðverjar náðu að halda stjórninni þar sem eftir lifði leiks þó Norðmenn hafi reynt sitt besta til að jafna metin.

Noregur komst næst því þegar liðið minnkaði muninn niður í tvö mörk, 26:24, í blálokin en Þýskaland klykkti út með því að skora tvö síðustu mörk leiksins og vann þannig sterkan fjögurra marka sigur.

Johannes Golla, Luca Witzke og Kai Häfner voru markahæstir hjá Þýskalandi, allir með fimm mörk. Juri Knorr bætti svo við fjórum.

Magnus Gullerud var markahæstur í leiknum með sex mörk fyrir Noreg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert