Danmörk heimsmeistari þriðja skiptið í röð

Leikmenn Danmerkur fagna eftir að sigurinn var í höfn.
Leikmenn Danmerkur fagna eftir að sigurinn var í höfn. AFP/Jonathan Nackstrand

Danmörk tryggði sér í kvöld heimsmeistaratitilinn í handknattleik karla með því að hafa betur gegn Frakklandi, 34:29, í úrslitaleik HM 2023 í Stokkhólmi í Svíþjóð. Danir hafa nú orðið heimsmeistarar þrisvar sinnum í röð.

Danir hófu leikinn stórkostlega þar sem Niklas Landin var í miklu stuði í markinu og allar sóknir liðsins enduðu með marki.

Staðan var orðin 6:2 snemma leiks og varð munurinn mestur fimm mörk, 12:7, um miðjan fyrri hálfleik.

Þá tóku Frakkar mjög vel við sér og minnkuðu muninn niður í aðeins eitt mark 16:15, sem voru hálfleikstölur.

Danski bekkurinn fagnar marki í kvöld.
Danski bekkurinn fagnar marki í kvöld. AFP/Jonathan Nackstrand

Í upphafi síðari hálfleiks var mikið jafnræði með liðunum en Danir voru þó ávallt skrefi framar.

Þegar líða tók á hálfleikinn bætti Danmörk aðeins í og náði fjögurra marka forystu, 30:26, þegar skammt var eftir.

Frakkar minnkuðu muninn niður í tvö mörk, 31:29, en komust hins vegar ekki nær þar sem Danir skoruðu síðustu þrjú mörk leiksins og unnu að lokum frækinn fjögurra marka sigur.

Danmörk er fyrsta liðið sem vinnur þrjá heimsmeistaratitla í röð eftir að hafa hrósað sigri á HM 2021 í Egyptalandi og HM 2019 í Danmörku og Þýskalandi.

Rasmus Lauge var markahæstur í leiknum með tíu mörk fyrir Danmörku. Simon Pytlick var ekki langt undan með níu mörk.

Nedim Remili var markahæstur í liði Frakklands með sex mörk. Dika Mem bætti við fimm mörkum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert