Töpuðu síðast á HM fyrir sex árum

Niklas Landin lyftir heimsmeistarabikarnum í gærkvöldi.
Niklas Landin lyftir heimsmeistarabikarnum í gærkvöldi. AFP/Liselotte Sabroe

Sigurganga hins magnaða danska karlalandsliðs í handknattleik á heimsmeistaramótum undanfarin ár hefur verið með nokkrum ólíkindum.

Í gærkvöldi tryggði Danmörk sér þriðja heimsmeistaratitilinn í röð og varð fyrsta liðið í sögunni til þess að afreka það.

Ekki nóg með það þá hefur liðið ekki tapað í 28 leikjum í röð á HM, sem einnig er met. Fyrra metið átti Frakkland, sem lék 25 leiki á HM í röð án þess að tapa.

Síðasti tapleikur liðsins kom á HM 2017 þegar Ungverjaland hafði betur gegn Danmörku, 27:25, í 16-liða úrslitum. Eftir það hefur tekið við ótrúleg sigurganga þar sem 26 leikir hafa unnist og aðeins tveir endað með jafntefli.

Á HM 2019 í Danmörku og Þýskalandi fóru Danir taplausir í gegnum mótið og hrósuðu sigri að því loknu og slíkt hið sama gerðist á HM 2021 í Egyptalandi og HM 2023 í Svíþjóð og Póllandi.

mbl.is