Rekinn eftir vonbrigðin á HM

Hrvoje Horvat hefur verið vikið frá störfum sem landsliðsþjálfari Króatíu.
Hrvoje Horvat hefur verið vikið frá störfum sem landsliðsþjálfari Króatíu. AFP/Andreas Hillergren

Króatíska handknattleikssambandið hefur vikið Hrvoje Horvat frá störfum sem landsliðsþjálfari karlaliðs þjóðarinnar, eftir vonbrigðin á HM í Svíþjóð og Póllandi í síðasta mánuði.

Króatíska liðið hafnaði í níunda sæti mótsins og voru það mikil vonbrigði að liðinu mistókst að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum.

Goran Perkovac, sem var fyrirliði króatíska liðsins er það varð Ólympíumeistari í Atlanta árið 1996, hefur verið ráðinn í stað Horvat. Hann var einnig í króatíska liðinu sem vann silfur á HM á Íslandi 1995.

Perkovac var þjálfari Luzern í Sviss á árunum 2018 til 2022 og hefur einnig þjálfað Minden og N-Lübbecke í Þýskalandi. Þá hefur hann verið landsliðsþjálfari Grikklands og Sviss.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert