Nikolaj Jacobsen, þjálfari danska karlalandsliðsins í knattspyrnu harðneitar því að hafa tekið stórskyttuna Mathias Gidsel snemma af velli í vináttulandsleiknum gegn Barein í kvöld til að koma í veg fyrir að hann tæki af sér markemet danska landsliðsins.
Jacobsen skoraði 15 mörk í einum leik á sínum tíma, þegar hann var einn af bestu hornamönnum heims. Í kvöld hafði Gidsel skorað 12 mörk gegn Barein eftir 40 mínútur en sat síðan á varamannabekknum það sem eftir lifði leiks.
„Við vitum allir að þetta met mun ekki verða slegið á meðan Nikolaj er þjálfari. En ég skal ná honum einn góðan veðurdag!" sagði Gidsel og skellihló í viðtali við TV 2 sport eftir leikinn.
Jacobsen tók undir þetta á léttum nótum en gaf skýringar á bekkjarsetu Gidsels síðustu 20 mínúturnar.
„Menn mega skora eins mörg mörk og þeir vilja þar til þeir fara að ógna metinu mínu," sagði þjálfarinn brosandi.
„En hann vissi vel að hann fengi aðeins tíu mínútur í seinni hálfleiknum og hefði getað nýtt þær til að skora eins mörg mörk og hann vildi," bætti hann við.
Gidsel hefur áður ógnað meti Jacobsens en hann skoraði 13 mörk í leik gegn Argentínu á Ólympíuleikunum í sumar, úr þrettán skotum.
„Auðvitað vill maður komast í sögubækurnar, nafn Nikolajs og þetta met hafa verið þar mjög lengi. Þetta er eitthvað sem maður gæti tekið með sér í gröfina. En ég fer ekki heim í fýlu í hans garð. Við vorum að undirbúa okkur fyrir HM og gerðum það vel," sagði Gidsel við TV 2.
Danir unnu stórsigur á Aroni Kristjánssyni og hans mönnum í Barein, 39:20, og hefja keppni á heimsmeistaramótinu á þriðjudagskvöldið þegar þeir mæta Alsír á heimavelli í Herning á Jótlandi.