„Að ætla að bíða eftir Aroni er dauðadómur“

Landsliðsfyrirliðinn Aron Pálmarsson og landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson.
Landsliðsfyrirliðinn Aron Pálmarsson og landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson. mbl.is/Karítas

Óvíst er með þátttöku landsliðsfyrirliðans Arons Pálmarsson á komandi heimsmeistaramóti í handknattleik sem hefst á þriðjudaginn í Króatíu, Danmörku og Noregi.

Aron, sem er 34 ára gamall, er að glíma við meiðsli í kálfa og reiknar landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson ekki með Aroni fyrr en í fyrsta lagi í milliriðlakeppninni sem hefst þann 22. janúar hjá íslenska liðinu, takist því að komast upp úr riðlinum.

Landsliðsfyrirliðinn er á leið á sitt fimmtánda stórmót með íslenska liðinu en hann er sá eini í hópnum, ásamt Björgvin Páli Gústavssyni, sem vann til bronsverðlauna með liðinu á EM 2010 í Austurríki.

Jafn mikilvægur utan vallar

„Aron er jafn mikilvægur okkur innan vallar sem utan, hann er fyrirliðinn og leiðtogi liðsins,“ sagði Snorri Steinn í samtali við mbl.is.

„Það er vont að hann sé ekki með okkur en hann hefur heldur ekki spilað með okkur síðan á Evrópumótinu í Þýskalandi í janúar á síðasta ári. Ég hef lagt mikla áherslu á það að það að ætla að bíða eftir Aroni sé dauðadómur. 

Aðrir leikmenn liðsins verða einfaldlega að stíga upp og gera þetta án hans. Hugsunarhátturinn hjá öðrum leikmönnum liðsins verður að vera í þá áttina að þeir ætli sér að negla stöðuna í fjarveru hans og að það sé þá erfitt fyrir mig að ætla að gera einhverjar breytingar. 

Það er í raun óskastaða þjálfarans. Ég vil sjá leikmenn spila það vel í fjarveru hans að þeir eigi það fyllilega skilið að halda áfram að spila, jafnvel þótt Aron sé heill heilsu,“ bætti Snorri Steinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert