Alexander Blonz, markahæsti leikmaður Norðmanna í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í sumar, varð fyrir tvöföldu áfalli á dögunum.
Fyrst varð hann að draga sig út úr landsliðshópi Norðmanna fyrir heimsmeistaramótið sem hefst á morgun, vegna meiðsla í hné, en þar er Noregur gestgjafi ásamt Danmörku og Króatíu.
Síðan veiktist hann skyndilega og var fluttur á sjúkrahús þar sem í ljós kom að hann var með blóðtappa í heila.
Blonz, sem er 24 ára gamall og leikur með GOG í Danmörku, gekkst strax undir aðgerð og var í tíu daga á sjúkrahúsi. Hann hefur jafnað sig að nokkru en þarf að taka sér frí frá handbolta næstu vikur og mánuði.
„Rannsóknin leiddi í ljós að ég væri með gat á hjartanu en sem betur fór var það mjög einfalt viðureignar og þurfti aðeins litla aðgerð. En auðvitað var þetta mikið áfall," segir Blonz við VG í Noregi.
„Þetta er fyrsta langa hléið sem ég þarf að taka á mínum handboltaferli en ég einbeiti mér að endurhæfingunni og kem sterkari til baka," segir Alexander Blonz sem hefur skorað 243 mörk í 91 landsleik fyrir Noreg og var kornungur í liði Norðmanna sem lék til úrslita á heimsmeistaramótinu árið 2019 og fékk bronsið á EM ári síðar.