Sjáum til hvernig þetta verður þegar allt fer í skrúfuna

Snorri Steinn Guðjónsson er á leið á sitt annað stórmót …
Snorri Steinn Guðjónsson er á leið á sitt annað stórmót með landsliðinu. AFP/Ina Fassbender

Landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson er fullur tilhlökkunar en hann er á leið á sitt annað stórmót sem þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handknattleik. Þetta er í 23. sinn sem Ísland tekur þátt á heimsmeistaramótinu í handbolta og sjöunda skiptið í röð sem Ísland er á meðal þátttökuþjóða en liðinu mistókst að tryggja sér sæti á mótinu árið 2009 sem fram fór í Króatíu.

Ísland leikur í G-riðli keppninnar ásamt Slóveníu, Kúbu og Grænhöfðaeyjum í Zagreb í Króatíu en mótið fer einnig fram í Danmörku og Noregi. Efstu þrjú lið riðilsins tryggja sér sæti í milliriðli fjögur sem verður einnig leikinn í Zagreb. Takist Íslandi að komast áfram í milliriðla verða næstu mótherjar liðsins úr H-riðli þar sem Egyptaland, Króatía, Argentína og Barein leika.

Tvö efstu lið milliriðilsins komast svo áfram í 8-liða úrslitin sem verða leikin í Zagreb og Bærum í Noregi en takist Íslandi að komast áfram í 8-liða úrslitin mætir liðið mótherjum úr milliriðli tvö sem samanstendur af liðum úr C-riðli þar sem Frakkland, Austurríki, Katar og Kúveit leika, og D-riðli þar sem Ungverjaland, Holland, Norður-Makedónía og Gínea leika.

Passa vel upp á mig

Hvernig undirbýr landsliðsþjálfarinn sig fyrir komandi stórmót?

„Ég horfi mikið á handbolta og velti þessu fyrir mér fram og til baka allan liðlangan daginn. Þetta er samt ekki bara ég, því ég er með frábært teymi í kringum mig sem við erum búnir að stækka og þeir passa vel upp á mig. Þegar öllu er á botninn hvolft þá snýst þetta um leikmennina og leik liðsins. Þetta er ákveðinn túr sem þú ferð í en þetta miðast við æfingarnar, leikina og hvað við erum að gera. Hvað virkar og hvað virkar ekki og svo er maður mikið að horfa í mótherja liðsins. Þetta er í hausnum á manni allan sólarhringinn,“ sagði Snorri sem var því næst spurður að því hvort hann næði að sofa eitthvað á nóttunni.

„Ég sef ágætlega þessa dagana en svo þurfum við að sjá til hvernig þetta verður þegar allt fer í skrúfuna. Ég náði að hvílast í fyrra og ég hlakka mikið til núna. Ég er í góðu standi núna þannig að ég hef engar áhyggjur af þessu og fólk þarf ekki að hafa áhyggjur af mér.“

Finnur Snorri Steinn fyrir pressu fyrir sitt annað stórmót?

„Það er alltaf pressa að vera landsliðsþjálfari Íslands í handbolta og þannig á það að vera. Ef pressan væri ekki til staðar þá værum við ekki nægilega stórir. Pressan er til staðar og ég fagna henni,“ bætti landsliðsþjálfarinn við í samtali við Morgunblaðið.

Ítarlegt viðtal við Snorra Stein má sjá í HM-blaði Morgunblaðsins sem kom út í gær en viðtalið má einnig sjá með því að smella hér.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert