Fengið þau skilaboð að ég sé aðalmarkvörður

Viktor Gísli Hallgrímsson ræðir við mbl.is.
Viktor Gísli Hallgrímsson ræðir við mbl.is. mbl.is/Eyþór Árnason

Ísland leikur sinn fyrsta leik á HM karla í handbolta er liðið mætir Grænhöfðaeyjum í Zagreb í kvöld. Næst tekur við leikur við Kúbu og loks Slóveníu.

„Þetta eru tveir auðveldari leikir á blaði og einn erfiðari á móti Slóveníu. Markmiðið okkar er að vinna þennan riðil og svo sjáum við hvað gerist í framhaldinu,“ sagði Viktor Gísli Hallgrímsson, markvörður Íslands, í samtali við mbl.is í Zagreb.

Hann á von á mikið af skotum utan af velli frá liði Grænhöfðaeyja í kvöld.

„Ég á von á mikið af skotum fyrir utan. Við spiluðum við þá í Svíþjóð fyrir tveimur árum og þeir skutu mikið á markið þá. Þeir eru með skyttur báðum megin sem geta hamrað á markið. Þetta er svolítið öðruvísi áskorun fyrir mig en spennandi áskorun,“ sagði Viktor.

Viktor Gísli Hallgrímsson á æfingu í Zagreb.
Viktor Gísli Hallgrímsson á æfingu í Zagreb. mbl.is/Eyþór

Viktor hefur fengið þau skilaboð frá þjálfarateymi Íslands að hann sé aðalmarkvörður og með Björgvin Pál Gústavsson sér til halds og trausts.

„Hlutverkið mitt er orðið skýrara og við hverju er búist af mér. Það hjálpar mér mikið. Reynslan hjálpar líka til, þar sem ég er búinn að keppa á nokkrum mótum. Ég þekki þetta aðeins betur.

Ég hef fengið þau skilaboð að ég sé aðalmarkvörður og ég er mjög sáttur við það. Ég hef barist um að komast í þá stöðu í mörg ár. Við Björgvin erum líka gott teymi og höfum unnið saman í mörg ár. Við erum góðir saman og þurfum að standa okkur,“ sagði Viktor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert