Íslenska karlalandsliðið í handknattleik mætir Grænhöfðaeyjum í fyrsta leik sínum í G-riðli heimsmeistaramótsins í Zagreb í kvöld en mótið fer fram í Króatíu, Danmörku og Noregi.
Markverðirnir tveir og hornamennirnir fjórir eru allir í stórum hlutverkum hjá félagsliðum sínum og þá leika fjórir af horna- og markvörðum liðsins í Meistaradeildinni á yfirstandandi keppnistímabili.
Björgvin Páll, sem er 39 ára gamall, er samningsbundinn Val í úrvalsdeildinni hér heima en hann er uppalinn hjá HK í Kópavogi.
Björgvin á að baki 275 A-landsleiki og er reynslumesti leikmaðurinn í íslenska hópnum en í þessum leikjum hefur hann skorað 24 mörk. Hann lék sinn fyrsta landsleik gegn Póllandi í Ólafsvík árið 2003. Heimsmeistaramótið í Króatíu, Danmörku og Noregi verður sautjánda stórmót markvarðarins og hans áttunda heimsmeistaramót.
Viktor Gísli, sem er 24 ára gamall, er samningsbundinn Wisla Plock í efstu deild Póllands, en hann gekk til liðs við félagið frá Nantes í Frakkland síðasta sumar og skrifaði undir eins árs samning í Póllandi.
Viktor Gísli á að baki 62 A-landsleiki þar sem hann hefur skorað eitt mark en hann lék sinn fyrsta landsleik gegn Noregi í Bergen í apríl árið 2018. Markvörðurinn er á leið á sitt sjötta stórmót með íslenska landsliðinu.
Bjarki Már, sem er 34 ára gamall, er samningsbundinn stórliði Veszprém í Ungverjalandi en hann gekk til liðs við ungverska félagið frá Lemgo í Þýskalandi sumarið 2022.
Bjarki Már lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Hollandi í Laugardalshöll árið 2012. Alls á hann að baki 120 landsleiki, þar sem hann hefur skorað 404 mörk, en hann er á leið á sitt áttunda stórmót.
Orri Freyr, sem er 25 ára gamall, er samningsbundinn Sporting í portúgölsku 1. deildinni en hann er uppalinn hjá Haukum í Hafnarfirði.
Hann lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Litháen í Laugardalshöll í nóvember árið 2020 en alls á hann að baki 30 A-landsleiki og 44 mörk. Heimsmeistaramótið í Króatíu, Danmörku og Noregi verður annað stórmót Orra.
Óðinn Þór, sem er 27 ára gamall, er samningsbundinn svissnesku meisturunum í Kadetten en hann er uppalinn hjá HK í Kópavogi.
Óðinn lék sinn fyrsta A-landsleik gegn gegn Svíþjóð árið 2017 en alls á hann að baki 44 landsleiki þar sem hann hefur skorað 131 mark. Heimsmeistaramótið í Króatíu, Danmörku og Noregi verður fjórða stórmót hornamannsins.
Sigvaldi, sem er þrítugur, er samningsbundinn Kolstad í Noregi en hann gekk til liðs við norska félagið sumarið 2022 frá pólska stórliðinu Kielce þar sem hann lék í tvö tímabil, frá 2020 til 2022. Hann varð tvívegis Póllandsmeistari með liðinu.
Hægri hornamaðurinn lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Noregi í Elverum ári 2017 en alls á hann að baki 78 landsleiki þar sem hann hefur skorað 215 mörk. Hann er á leið á sitt sjöunda stórmót með íslenska landsliðinu.