„Fyrsti leikurinn í mótinu búinn og tvö stig. Þá getum við farið heim og farið að undirbúa okkur fyrir næsta leik,“ sagði Janus Daði Smárason, maður leiksins í öruggum sigri Íslands á Grænhöfðaeyjum í G-riðli HM í handbolta í Zagreb í kvöld.
Íslenska liðið byrjaði af miklum krafti í leiknum og lagði þannig grunninn að 34:21-sigri.
„Við mættum þokkalega klárir, stóðum góða vörn og Viktor var að verja. Þá eigum við bara að vera mörgum mörkum betri en Grænhöfðaeyjar. Það kemur svo sem ekki af sjálfu sér en við allavega gerðum þetta mjög vel,“ sagði Janus Daði í samtali við mbl.is eftir leik.
Í síðari hálfleik átti Ísland slæman kafla þegar Grænhöfðaeyjar skoruðu fimm mörk í röð. Selfyssingurinn vildi ekki dvelja við það neikvæða.
„Nei, nei, þetta er alltaf bara áminning um að gera þá kröfu að gera vel. Svo er þetta flókið og getur verið strembið með tempóið í leiknum, þeir ná dálítið að drepa það.
Ef þú ert ekki effektívur þá lenda öll lið í veseni þegar þú ert á svona hraða. En við unnum og ég nenni ekki að pæla meira í þessum leik. Það er bara að taka okkar dæmi með í næsta leik, hópurinn, og sjá hvað gerist,“ sagði hann.
Spurður hvort hann væri sáttur við eigin frammistöðu sagði Janus Daði:
„Já, já. Mér fannst ég bara mæta nokkuð klár. Svo eru alltaf einhver smáatriði sem þú vilt gera öðruvísi og hefðir getað gert betur. Það er bara boltinn.“
Hann bætti því við að leikmenn fái ekki lengur nein verðlaun fyrir að vera valdir menn leiksins.
„Ég held að það sé alveg búið, maður fær ekkert lengur. Þetta var einhvern tímann eitthvað til góðgerðarmála en þetta er bara plagg núna.“
Næsti leikur er gegn Kúbu á laugardag. Kúba steinlá fyrir Slóveníu fyrr í kvöld en aðspurður kvaðst hann ekki vita hvort Kúba eða Grænhöfðaeyjar væri sterkari andstæðingur.
„Ég skal viðurkenna að ég veit það ekki. Ég hef ekki spilað áður á móti Kúbu, sá þá aðeins hérna áðan. En þetta er svipað og í dag.
Við þurfum að einbeita okkur að okkur sem liði og halda áfram að taka skref í áttina að einhverju sem er vonandi stórt og allavega stærra en þar sem við erum í dag,“ sagði Janus Daði að lokum í samtali við mbl.is.