Aron mættur aftur: Ég er svo ógeðslega glaður

Aron einbeittur með boltann í kvöld.
Aron einbeittur með boltann í kvöld. mbl.is/Eyþór

„Þetta var skyldusigur,“ sagði Aron Pálmarsson, landsliðsfyrirliði í handbolta, í samtali við mbl.is eftir 40:19-stórsigur á Kúbu á HM í Zagreb í kvöld.

„Við verðum þetta vel og fagmannlega frá fyrstu mínútu, keyrðum vel á þá, skoruðum helling af mörkum og gerðum þetta eins og góðu liði sæmir,“ bætti Aron við.

Aron hefur verið að glíma við kálfameiðsli undanfarnar vikur en er mættur aftur í slaginn. Hann spilaði fyrsta korterið og gerði það býsna vel.

„Mér leið mjög vel, var vel fókusaður og allt eftir plani,“ sagði Aron en var erfitt að fara af velli eftir gott korter eða svo? „Já og nei. Við vorum búnir að ákveða þetta og það var gott að halda plani.“

Aron Pálmarsson spilaði sinn fyrsta leik á HM 2025 í …
Aron Pálmarsson spilaði sinn fyrsta leik á HM 2025 í kvöld. mbl.is/Eyþór

Loksins fáum við stóran leik

Þrátt fyrir að vera nýkominn til baka eftir meiðsli vildi Aron ólmur spila leikinn í kvöld og fá að spila með landsliðinu.

„Ég er svo glaður og mér líður svo vel. Ég er svo ógeðslega glaður að vera hérna, með þessu geggjaða liði,“ sagði Aron kátur.

Hann er spenntur fyrir úrslitaleiknum við Slóveníu um toppsæti riðilsins á mánudagskvöldið.

„Ég get ekki beðið eftir leiknum á mánudaginn. Það verður alvöruleikur. Mér líst vel á hann. Slóvenía er með geggjað lið og skemmtilegt lið. Það verður gaman að fá loksins stóran leik.

Það er enginn sem spilar 60 mínútur held ég. Í höfðinu á mér er ég 100 prósent klár. Mér líður þannig í kálfanum en auðvitað verður einhver að hafa vit fyrir manni. 

Maður þarf að taka því og ég verð alls ekkert fúll ef ég spila eitthvað minna. Svo lengi sem við spilum vel og vinnum leiki, þá er ég sáttur,“ sagði Aron.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert