Snorri: Nálægt því að vera einhver þvælubrot

Orri Freyr Þorkelsson varð fyrir ljótu broti og leikmaður Kúbu …
Orri Freyr Þorkelsson varð fyrir ljótu broti og leikmaður Kúbu fékk rautt spjald fyrir. mbl.is/Eyþór

Landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson var ánægður með frammistöðu Íslands gegn Kúbu á HM karla í handbolta í Zagreb í kvöld. Urðu lokatölur 40:19.

„Við fengum ekki þennan slæma kafla eins og á móti Grænhöfðaeyjum og að því leyti var þetta betra. Við héldum betur út. Við kláruðum þetta eins og ég vildi klára hinn leikinn. Mögulega eru Grænhöfðaeyjar aðeins betri. Án þess að ég ætla að leggja einhverja vinnu í að dæma það.

Ég fékk það sem ég bað um hjá strákunum. Ég lagði mikla áherslu á að við mættum einbeittir og af krafti til leiks. Mér finnst við þurfa að sýna hverjum einasta leik virðingu á heimsmeistaramóti og ég vildi vinna leikinn svona. Ég er ánægður með frammistöðuna,“ sagði Snorri.

Snorri Steinn Guðjónsson hugsi á hliðarlínunni í kvöld.
Snorri Steinn Guðjónsson hugsi á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Eyþór

Kúba komst þrisvar yfir á fyrstu mínútum leiksins og var staðan 3:3 snemma leiks. Eftir það tók við góður kafli hjá Íslandi sem keyrði yfir Kúbu.

„Þeir byrjuðu líka svona á móti Slóveníu og þetta voru nákvæmlega eins mörk og á móti Slóveníu. Þeir eru með tvo gaura sem geta skotið fyrir utan og kannski vorum við flatir. Við þurftum að koma okkur í gang og kveikja á okkur. Við stigum á bensínið, mjötluðum þetta hægt og rólega og keyrðum út allan leikinn.“

Í nokkur skipti í leiknum urðu leikmenn Íslands pirraðir yfir brotum Kúbumanna.

„Þeir voru kannski ekki grófir en þeir voru klaufalegir. Þegar þú ert langt yfir og átt vonandi marga leiki fram undan fara menn að hugsa að meiðslin séu dýr á svona móti. Ef þú meiðist eitthvað geta mótin verið í hættu. Þetta var nálægt því að vera einhver þvælubrot en þetta slapp fyrir horn,“ sagði Snorri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert