Argentína verður mótherji Íslands í milliriðli heimsmeistaramóts karla í handknattleik eftir sigur á Aroni Kristjánssyni og lærisveinum hans í Barein í úrslitaleik liðanna um þriðja sæti H-riðilsins í Zagreb í dag, 26:25.
Króatía og Egyptaland eru með 4 stig og mætast í kvöld, Argentína fékk 2 stig en Barein ekkert og fer því í keppnina um Forsetabikarinn. Naumt var það hjá Aroni og hans mönnum því þeim hefði nægt jafntefli gegn Argentínu til að fara áfram.
Það eru því sem sagt Króatía, Egyptaland og Argentína sem bíða íslenska liðsins í milliriðlakeppninni í Zagreb sem hefst á miðvikudaginn en leikjaröðin liggur ekki fyrir fyrr en eftir leik Íslands og Slóveníu annað kvöld.
Norður-Makedónía sigraði Gíneu, 29:20, í hreinum úrslitaleik í Varazdin í Króatíu um þriðja sætið í D-riðli, og sæti í milliriðli tvö. Í honum verða því Frakkland, Austurríki, Katar, Holland, Ungverjaland og Norður-Makedónía.
Holland er með 4 stig í D-riðli, Ungverjaland 3, Norður-Makedónía 3 en Gínea ekkert. Holland og Ungverjaland mætast í kvöld og það má því segja að sá leikur sé í milliriðlinum.
Brasilía tryggði sér sæti í milliriðli þrjú með sigri á Bandaríkjunum, 31;24, í hreinum úrslitaleik í E-riðli í Bærum í Noregi.
Brasilía verður í milliriðli þrjú ásamt Portúgal, Noregi, Svíþjóð, Spáni og annaðhvort Japan eða Síle.
Portúgal er með 4 stig í E-riðli, Brasilía 4, Noregur 2 og Bandaríkin ekkert. Noregur og Portúgal mætast í Bærum í kvöld.
Þýskaland, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, fer áfram með fullt hús stiga úr A-riðli eftir sigur á Tékklandi, 29:22.
Þýskaland vann riðilinn með 6 stig, Sviss fékk 3 stig, Tékkland 2 og Pólland eitt stig.
Í milliriðli eitt verða því Danmörk og Þýskaland með 4 stig hvort, Ítalía með 2, Tékkland 1, Sviss 1 og Túnis ekkert.