Bjarki Már Elísson, landsliðsmaður í handbolta, var í mörg ár með sítt hár en hann ákvað nýlega að klippa hárið stutt, fá sér strípur og safna yfirvaraskeggi.
„Það var ekki eitthvað eitt sem gerðist. Ég ákvað að breyta til og ég er aðeins að leika mér. Það er gaman að vera til og það er gaman að breyta til. Þetta er liður í því.
Mér finnst þetta koma vel út en það er mörgum sem finnst þetta hræðilegt á meðan öðrum finnst þetta flott. Það er bara skemmtilegt. Mér finnst þetta töff og það er það mikilvægasta í þessu,“ sagði Bjarki við mbl.is.
Hann saknar ekki síða hársins þar sem það er léttara að spila handbolta með styttra hár.
„Ég fann mun um leið og ég hætti með síða hárið. Ég þurfti ekki lengur að muna eftir hárböndunum og ekki lengur að glíma við harpixklessur í hárinu. Menn voru að rekast í þetta og labba í burtu með hárbolta í lófanum.
Ég lenti sem betur fer ekki í því að það var togað í hárið á mér. Ég er líka í horninu og oftast langt frá öllum hinum,“ sagði Bjarki.