Ísland vann örugga sigra á Grænhöfðaeyjum og Kúbu í tveimur fyrstu leikjum sínum á HM karla í handbolta. Töluvert erfiðara verkefni bíður íslenska liðsins á annað kvöld er það mætir því slóvenska í úrslitaleik um toppsæti G-riðils.
„Við eigum að vinna báða leiki örugglega með okkar lið en það er gott að byrja mótið af krafti þegar það eru miklar væntingar. Það vilja allir standa sig vel í fyrsta leik. Það er fullt af andlegum þáttum sem spila inn í. Við gerðum þetta þokkalega,“ sagði leikstjórnandinn Janus Daði Smárason við mbl.is á hóteli landsliðsins í Zagreb.
„Nú er þetta að byrja. Við erum búnir að vera flottir og æft vel. Við fáum fínan tíma til að undirbúa okkur fyrir Slóvenana. Það eru allir ferskir og þurfa að vera það því Slóvenarnir eru hörkugóðir. Við erum góðir líka.
Þeir eru með marga góða handboltamenn sem hafa verið lengi saman. Þeir hafa sýnt það síðustu 5-6 ár að þeir enda oftast í efstu sex sætunum,“ bætti Janus við.
Hann er spenntur fyrir leikinn við Slóveníu, þar sem ansi mikið er undir.
„Mér líður mjög vel. Við erum allir spenntir og þetta er loksins að byrja. Það er ekkert gaman að spila við Grænhöfðaeyjar og Kúbu. Nú þurfum við að taka ábyrgð og vera góðir þegar á reynir,“ sagði Janus.