Bumban í Íslandslitunum: Gat ekki misst af þessu

Bumbulíus verður í Íslandslitunum í kvöld.
Bumbulíus verður í Íslandslitunum í kvöld. mbl.is/Eyþór Árnason

Herdís Rútsdóttir, stuðningskona íslenska landsliðsins í handbolta, stóð upp úr í miðborg Zagreb í dag þar sem hún er ófrísk og með bumbuna í Íslandslitunum fyrir leik Íslands og Slóveníu á HM.

„Þetta er búið að vera æðislegt. Þetta er geggjuð upplifun og sérstaklega gaman að Sérsveitin sé komin með enn meiri stemningu. Þetta er ógeðslega gaman,“ sagði Herdís kát í samtali við mbl.is.

Móðir hennar Guðbjörg Albertsdóttir fagnaði sextugsafmæli sínu í gær og fékk hún ferð á HM í óvænta afmælisgjöf. Herdís lét ekki óléttu stöðva sig í að koma með.

Herdís kát í Zagreb í kvöld.
Herdís kát í Zagreb í kvöld. mbl.is/Eyþór Árnason

„Við erum í óvæntri afmælisferð fyrir mömmu mína og systur. Mamma mín varð sextug í gær. Ég gat ekki misst af þessu. Ef þetta væri ekki sextugsafmæli hefði ég kannski verið heima.“

„Við ákváðum þetta í byrjun september og það má fljúga fram á 36. viku. Þá sá ég að þetta væri í lagi og ég sló til.“

Flestir Íslendingar í Zagreb létu andlitsmálningu duga en Herdís tók næsta skref og fór í bumbumálningu sömuleiðis.

mbl.is/Eyþór Árnason

„Þetta er alvöruleikur og þá tökum við þetta alla leið. Ég held að eldri börnin séu frekar öfundsjúk að bumbi fái að upplifa þetta núna,“ sagði hún og hló.

Herdís er örlítið stressuð en spennt á sama tíma fyrir mikilvægan leik.

„Ég hef góða tilfinningu fyrir þessu en auðvitað er maður pínu stressaður líka. Ég er mjög spennt að koma mér upp í höll og sjá leikinn. Þetta er fyrsta mótið en pottþétt ekki það síðasta,“ sagði Herdís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert