Undanriðlunum á heimsmeistaramóti karla í handknattleik lýkur í kvöld þegar Ísland mætir Slóveníu í lokaumferð G-riðilsins í Zagreb.
Á sama tíma mætast Svíar og Spánverjar í F-riðlinum í Bærum í Noregi, og að þeim leikjum loknum liggja milliriðlar þrjú og fjögur endanlega fyrir.
Ísland verður í milliriðli fjögur ásamt Egyptalandi, Króatíu, Argentínu, Slóveníu og svo annaðhvort Grænhöfðaeyjum eða Kúbu. Liðin taka innbyrðis viðureignirnar með sér.
Íslenska liðið tekur því með sér úrslitin úr leiknum við Slóveníu í kvöld og úrslitin gegn sigurvegaranum úr viðureign Grænhöfðaeyja og Kúbu. Ísland hefur því keppni í milliriðli með tvö, þrjú eða fjögur stig.
Úr H-riðlinum kemur Egyptaland með fjögur stig, Króatía með tvö stig og Argentína án stiga.
Leikirnir í milliriðlinum verða á miðvikudag 22. janúar, föstudag 24. janúar og sunnudag 26. janúar. Niðurröðunin ræðst af því hvort Ísland eða Slóvenía vinnur G-riðilinn.
Ef Ísland vinnur riðilinn verður dagskráin svona:
22. janúar: Ísland - Egyptaland (14.30)
24. janúar: Ísland - Króatía (17.00)
26. janúar: Ísland - Argentína (19.30)
Ef Slóvenía vinnur riðilinn verður dagskráin svona:
22. janúar: Ísland - Argentína (17.00)
24. janúar: Ísland - Egyptaland (14.30)
26. janúar: Ísland - Króatía (17.00)
Áætlaðar tímasetningar eru í svigum en þær geta breyst.