Orri Freyr Þorkelsson og Þorsteinn Leó Gunnarsson eru herbergisfélagar á HM í handbolta í Zagreb. Orri leikur með Sporting í Portúgal og Þorsteinn með Porto.
„Það er frábært að hafa hann. Við erum góðir félagar og þetta er litli og stóri blandan. Þetta er búið að vera hrikalega fínt hjá okkur. Við vorum herbergisfélagar í Svíþjóð og höfum æft saman frá 2. janúar.
Við búum langt frá hvor öðrum í Portúgal. Hann er í Porto og ég í Lissabon. Við hittumst eiginlega bara þegar við mætumst. Við erum að verða betri og betri vinir og það er frábært að vera með Steina í herbergi og ég vona að hann segi það sama um mig,“ sagði Orri við mbl.is.
„Hann sefur eins og steinn og er hrikalega fínn. Þetta er allt í toppstandi í herbergi 511 hjá okkur,“ bætti hornamaðurinn við.