„Ég er ótrúlega jákvæður og glaður,“ sagði Gísli Þorgeir Kristjánsson, landsliðsmaður í handbolta, í samtali við mbl.is eftir sigurinn glæsilega á Egyptalandi á HM í gærkvöldi.
„Við erum komnir í mjög góða stöðu. Okkur eru allir vegir færir og við verðum að halda þessu áfram. Þá ættum við að komast í átta liða úrslitin,“ sagði Gísli og hélt áfram:
„Þetta mallaði vel hjá okkur. Auðvitað eru hlutir sem er hægt að lagfæra og svo eru Egyptarnir klókir og ná að hnoða inn mörkum. Það voru líka einhver dauðafæri sem fóru forgörðum en við verðum að líta á jákvæðu hliðina.
Við vorum að vinna Egypta og við setjum kassann út og lítum stoltir á hvert við erum komnir. Þessi geðveiki og barátta sem var í síðasta leik var líka í þessum leik. Það einkennir okkur og við verðum að halda því í næstu leiki.“
Gísli átti góðan leik og braust oft í gegnum egypsku vörnina. Hann er hins vegar ekki sáttur við þýska dómara leiksins, sem gáfu honum lítið.
„Ég er smá pirraður út í þýsku dómarana að flauta of snemma og leyfa þessu ekki að fljóta aðeins meira. Ég skoraði t.d. mark sem þeir tóku af mér og svo fóru þeir eitthvað í hendurnar á mér og það var ekkert dæmt.
Ég á ekki að þurfa að fara úr axlarlið til að fá víti og tvær. Ég á ekki að þurfa að taka eitthvað leikrit. Dómarinn á að sjá þetta. En ég nenni þessari neikvæðni ekki lengur, við unnum.“
Næst á dagskrá hjá Gísla og félaga er leikur gegn Króatíu, í Zagreb. Verða 15.000 manns í stúkunni og flestir á bandi heimamanna, þótt Íslendingar verði með góðan hóp á leiknum.
„Þetta er draumastaða og þetta eru leikirnir sem við lifum fyrir. Auðvitað er gaman að hafa bláa múrinn í horninu og fá gæsahúð. Að spila fyrir framan 15.000 manns, vera frá litla Íslandi og vera á móti öllum í húsinu. Það eru mínir uppáhalds leikir,“ sagði Gísli.