Danir unnu stórsigur á Svisslendingum í milliriðli eitt á heimsmeistaramóti karla í handknattleik í Herning í Danmörk í kvöld, 39:28
Danir komust í 14:6 og eftir það var bara formsatriði að ljúka leiknum. Staðan var 18:11 í hálfleik.
Lasse Andersson skoraði átta mörk fyrir Dani og Mathias Gidsel sex og Emil Nielsen varði mjög vel í marki Dana og var valinn maður leiksins. Noam Leopold skoraði fimm mörk fyrir Sviss.
Danir með 8 stig og Þjóðverjar, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, með 6 stig eru þar með komnir áfram úr riðlinum. Ítalía er með 4 stig, Sviss 3, Tékkland 3 og Túnis ekkert.
Danir og Þjóðverjar mæta tveimur efstu liðunum í milliriðli þrjú, en þar eru Portúgal, Svíþjóð, Brasilía, Spánn og jafnvel Noregur í baráttu um að komast áfram.
Ungverjar sigruðu Austurríkismenn í milliriðli tvö í Varazdin í Króatíu, 29:26, og eru þar með komnir með annan fótinn í átta liða úrslitin, á eftir Frökkum.
Pedro Rodriguez skoraði átta mörk fyrir Ungverja og Sebastian Frimmel skoraði sex mörk fyrir Austurrrikismenn.
Frakkar eru með 8 stig, Ungverjar 5, Norður-Makedónía 4, Holland 4, Austurríki 3 stig og Katar ekkert. Ungverjar eiga eftir að mæta Katar og ná öðru sætinu með sigri í þeim leik.
Liðið sem endar í öðru sæti í milliriðli tvö mætir sigurliðinu í riðli Íslands í átta liða úrslitunum. Takist Íslendingum að vinna riðilinn er því nokkuð ljóst að Ungverjar yrðu andstæðingar þeirra næsta þriðjudag.