„Stemningin hérna er búin að vera geggjuð,“ sagði Jenný Fjóla Ólafsdóttir, kærasta markvarðarins Viktors Gísla Hallgrímssonar, í samtali við mbl.is í miðborg Zagreb.
Jenný Fjóla hefur mikla trú á íslenska liðinu en á sama tíma er hún stressuð fyrir leik Íslands gegn Króatíu í kvöld, enda mikið undir.
„Ég er mjög stressuð fyrir þennan leik, ég viðurkenni það. Ég er mjög stressuð týpa en á sama tíma veit ég að þeir verða geggjaðir og standa sig vel í þessum leik,“ sagði hún.
Viktor Gísli hefur verið besti markvörður heimsmeistaramótsins til þessa og stolið senunni í Zagreb.
„Það er geðveikt að fylgjast með honum. Ég er svo stolt af honum. Það er yndislegt hvað hann er búinn að vera góður og það er geðveikt að heyra nafnið hans þegar hann ver vel.
Það er miklu skemmtilegra að vera í stúkunni og allt öðruvísi. Það er ekki eins gaman að vera heima í sófanum og sérstaklega þegar stemningin hjá Íslendingunum er svona rosalega góð,“ sagði Jenný Fjóla.