Danmörk er heimsmeistari karla í handbolta í fjórða skipti í röð eftir öruggan sigur á Króatíu í Bærum í Noregi í kvöld. Urðu lokatölur 32:26.
Dagur Sigurðsson, þjálfari króatíska liðsins, varð að sætta sig við silfur.
Danir skoruðu fyrsta mark leiksins en Króatar jöfnuðu strax í næstu sókn. Þá sýndi besti markvörður mótsins listir sínar þegar Emil Nielsen varði næstu fjögur skot Króata og Danir komnir 4:1 yfir í leiknum.
Króatar minnkuðu muninn í 4:2 fyrir Dani sem héldu samt forskoti allan fyrri hálfleikinn. Króötum tókst að minnka muninn í eitt mark í stöðunni 8:7 en þá var Marco Mamic rekinn af velli með rautt spjald eftir að hafa brotið klaufalega á Rasmus Lauge.
Danir byggðu aftur upp fjögurra marka forskot og héldu því út hálfleikinn. Staðan í hálfleik var 16:12 fyrir Dani.
Ivan Martinovic skoraði 5 mörk fyrir Króata í fyrri hálfleik en Dominik Kuzmanovic varði 3 skot.
Hjá Dönum skoruðu þeir Emil Jakobsen og Mathias Gidsel 5 mörk hvor. Þrjú marka Jakobsen komu úr vítum.
Danir skoruðu fyrstu tvö mörk seinni hálfleiks og náðu 6 marka forskoti áður en Króatar skoruðu sitt fyrsta mark í seinni hálfleik. Danir gerðu gott betur og náðu 10 marka forskoti í stöðunni 24:14 en þá voru Danir búnir að skora 8 mörk gegn 2 mörkum Króata.
Króatar gáfust þó ekki alveg upp þó svo að ekkert benti til annars en að Danir myndu fagna heimsmeistaratitlinum og minnkuðu muninn í 5 mörk í stöðunni 28:23 fyrir Dani.
Það má segja að Króatarnir hafi verið með vindinn í fanginu allan seinni hálfleik en þegar þeim gekk hvað best í sínu áhlaupi við að minnka muninn þá misstu þeir tvo leikmenn út af á sama tíma, þegar Zvonimir Srna fékk sína þriðju brottvísun, og öðrum leikmanni var vikið út af að auki.
Króatar reyndu hvað þeir gátu en Danmörk fagnaði að lokum heimsmeistaratitlinum með 32:26-sigri á Króatíu.
Mathias Gidsel skoraði 10 mörk fyrir Dani og Emil Nielsen varði 14 skot. Ivan Martinovic skoraði 6 mörk fyrir Króata og varði Dominik Kuzmanovic 5 skot, þar af eitt vítaskot fyrir Króata.