„Stoltur að spila fyrir landið mitt“

Mikil tilhlökkun ríkir á meðal íslensku landsliðsmannanna í íshokkí sem í kvöld fá tækifæri til að spila fyrir framan íslenska áhorfendur í fyrsta skipti í sex ár. 

Ísland tekur á móti Nýja-Sjálandi í A-riðli 2. deildar heimsmeistaramótsins í íshokkí í Skautahöllinni í Laugardal í kvöld klukkan 20.

Mbl.is ræddi við landsliðsmennina Emil Alengård og Snorra Sigurbjörnsson á blaðamannafundi í gær. Báðir hafa þeir búið mestan hluta ævinnar erlendis. Emil í Svíþjóð en hann á sænskan föður og Snorri í Noregi en foreldrar hans fluttust búferlum þangað þegar hann var á barnsaldri.

„Ég er rosalega stoltur að spila fyrir landið mitt og þetta verður flott,“ sagði Emil við mbl.is og sagði fyrsta leikinn vera mikilvægan. „Við munum mæta mjög góðum liðum en Nýja-Sjáland er á svipuðum styrkleika og okkar lið. Við einbeitum okkur að leiknum við Nýja-Sjáland áður en við veltum framhaldinu fyrir okkur.“

Emil segir liðsandann ávallt vera afskaplega góðan í landsliðshópnum. „Mórallinn er rosalega fínn. Liðið er ungt og hæfileikaríkt enda höfum við staðið okkur betur á hverju ári sem er mjög jákvætt,“ sagði Emil Alengård en hann skoraði tvö mörk og gaf átta stoðsendingar í leikjunum fimm á HM í fyrra. ´

Áhorfendur geta hjálpað liðinu

Snorri segir að leikmenn liðsins hafi sett stefnuna á að ná í bronsverðlaun þar sem liðið sé á heimavelli. „Ég vona að við náum í medalíu eða 3. sætinu. Við verðum að gera okkar besta í hverjum leik og hafa gaman að því að spila á heimavelli. Vonandi tekst okkur að byrja mótið á því að vinna Nýja-Sjáland í fyrsta leik og bæta ofan á það í framhaldinu. Við erum allir sammála um það í landsliðshópnum að við yrðum sáttir með 4. sætið í þessum riðli en viljum auðvitað ná þriðja bronsinu í röð. Við erum tilbúnir að berjast fyrir því,“ sagði Snorri og vonast eftir því að fylla Skautahöllina.

„Ég er mjög spenntur enda gaman að vera á heimavelli . Vonandi verður full stúka og líf í höllinni. Það hjálpar okkur ef áhorfendur setja svip sinn á leikina,“ sagði varnarmaðurinn Snorri Sigurbjörnsson þegar mbl.is ræddi við hann á blaðamannafundinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert