Robin markahæstur á mótinu

Robin Hedström er markahæstur að loknum þremur leikjum í A-riðli 2. deildar heimsmeistaramóts karla í íshokkí sem fram fer í Reykjavík þessa dagana.

Robin hefur skorað fjögur mörk í fyrstu þremur leikjunum eins og Króatinn Andrew Sertich. Robin skoraði þrennu þegar Ísland vann Nýja-Sjáland 4:0 í fyrsta leiknum og skoraði fyrra mark Íslands í 2:7 tapleiknum gegn Eistlandi í gærkvöldi. Í millitíðinni vann Ísland lið Serbíu 5:3 en í þeim leik fékk Robin nokkuð þungt högg á andlitið og var talsvert utan vallar vegna þess.

Emil Alengård er ofarlega í nokkrum tölfræðiflokkum. Hann hefur til að mynda gefið þrjár stoðsendingar eins og hinn 19 ára gamli Ólafur Hrafn Björnsson. Eru þeir í 4. - 9. sæti á þeim lista. Emil toppar listann yfir þá sem unnið hafa flest „face off“ en það er yfirleitt kallar dómarakast í boltagreinunum. Emil hefur unnið 78% af slíkum einvígum og Jón Benedikt Gíslason er í 5. sæti og hefur unnið 65%. Þetta er nokkuð athyglisvert því á undanförnum árum hafa þeir Sigurður Sveinn Sigurðsson og Arnþór Bjarnason sinnt þessu hlutverki í miklum mæli en þeir gáfu ekki kost á sér í liðið að þessu sinni. 

Markvörðurinn Dennis Hedström er með 89% markvörslu í mótinu og er í 4. sæti. Birkir Árnason er í 7. sæti yfir þá varnarmenn sem tekið hafa þátt í flestum mörkum og Ingvar Þór Jónsson í 9. sæti. Þá er Jónas Breki Magnússon í 5. sæti yfir þá leikmenn sem oftast hafa verið reknir út af í 2 mínútur. 

mbl.is