Esja er Íslandsmeistari í fyrsta sinn

Björn Róbert Sigurðarson, fyrirliði Esju, með Íslandsmeistarabikarinn á lofti í …
Björn Róbert Sigurðarson, fyrirliði Esju, með Íslandsmeistarabikarinn á lofti í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ungmennafélagið Esja tryggði sér í dag sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í sögu félagsins eftir sigur á SA Víkingum í bráðavítaskotkeppni í hreint stórkostlegum þriðja leik liðanna í Laugardalnum í dag, en staðan eftir venjulegan leiktíma og framlengingu var 3:3. Esja vann einvígið samtals 3:0 og er fjórða liðið sem vinnur titilinn síðan Íslandsmótið fór fyrst fram veturinn 1991-1992.

Leikurinn var stórkostleg skemmtun og ekkert gefið eftir eins og við var að búast. Gestirnir frá Akureyri komust yfir á 7. mínútu þegar liðið var í yfirtölu og var það sannarlega reynsluboltamark. Jón Benedikt Gíslason fann þá Sigurð Sigurðsson sem var mættur í svæðið og kláraði af öryggi.

Akureyringar fengu á sig tvöfaldan dóm seint í fyrsta leikhluta, en héldu út einum færri í fjórar mínútur. Í öðrum hluta hélt svo baráttan áfram og strax á 23. mínútu jafnaði Esja. Björn Róbert Sigurðarson fékk þá pökkinn, stakk varnarmann SA af og skoraði. Staðan 1:1.

En á 31. mínútu komust gestirnir yfir á ný og aftur voru þeir þá í yfirtölu. Spilandi þjálfarinn Jussi Sipponen fékk þá pökkinn og var einn á auðum ís. Hann þrumaði á markið og skotið var of fast fyrir Erik Strandberg í marki Esju og endaði í netinu. 2:1 fyrir SA og þannig var staðan fyrir þriðja og síðasta leikhluta.

Esja jafnaði úr víti á ögurstundu

En rétt eins og í öðrum hluta þá voru Esjumenn fljótir að refsa í upphafi þess þriðja. Matthías Skjöldur Sigurðarson lék þá með pökkinn og kom honum á Ólaf Hrafn Björnsson sem var réttur maður á réttum stað á skilaði honum í netið. Staðan 2:2, allt galopið og veislan var bara rétt að byrja.

Á 50. mínútu komust SA Víkingar yfir í þriðja sinn í leiknum og í þriðja sinn voru þeir í yfirtölu. Orri Blöndal rak þá endahnútinn á pressu þeirra og staðan 3:2. Örskömmu síðar fóru Esjumenn aftur í boxið og SA í yfirtölu, en þá gerðist nokkuð sjaldgæft.

Egill Þormóðsson stal pökknum fyrir Esju strax í upphafi yfirtölunnar og var felldur þegar hann var að skauta einn í gegn. Víti dæmt, sem er alls ekki algengt í íshokkí, og Egill átti þá svellið út af fyrir sig frá miðju gegn Jussi Suvanto í marki SA. Egill sneri á Suvanto sem fór af línunni og jafnaði þriðja sinni fyrir Esju, 3:3, og átta mínútur eftir af leiknum. Ekki voru mörkin fleiri í venjulegum leiktíma og því þurfti að framlengja.

Björn Róbert hetjan í vítabráðabana

Esjumenn voru mikið mun sterkari í framlengingunni og Jussi Suvanto í marki SA þurfti margoft að taka á honum stóra sínum. Ekki tókst liðunum hins vegar að skora, enn var jafnt 3:3 í lok framlengingarinnar og því þurfti að grípa til vítaskotkeppni.

Þar skoruðu hvort lið úr einu af þremur vítum sínum og þá var gripið til vítabráðabana, hvorki meira né minna. Þar var það Björn Róbert Sigurðarson sem skoraði sigurmark Esju sem tryggði liðinu sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil. Og þvílíkur og annar eins leikur!

Fylgst var með gangi mála í þráðbeinni lýsingu hér á mbl.is, en viðtöl koma hingað inn á vefinn síðar í kvöld.

SA 5:4 SA opna loka
66. mín. Jón B. Gíslason (SA) Víti fer forgörðum Erik Strandberg ver frá Jóni!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert