Erum að hoppa út í djúpu laugina

„Við erum eiginlega að hoppa bara út í djúpu laugina,“ segir Aron Knútsson, landsliðsmaður í íshokkí og leikmaður UMFK Esju, en Esja leikur í dag fyrsta leik íslensks félagsliðs í Evrópukeppni.

Aron verður í eldlínunni með Esju kl. 17.30 að íslenskum tíma hér í Belgrad þegar liðið mætir Rauðu stjörnunni, heimamönnum. Esja er einnig í riðli með landsmeisturum Búlgaríu og Tyrklands og kemst aðeins efsta liðið áfram á 2. stig Evrópukeppninnar. Allir leikirnir í riðlinum fara fram í Belgrad nú um helgina.

Aron, sem lék sína fyrstu landsleiki í Rúmeníu fyrr á þessu ári, gekk í raðir Esju í sumar eftir að hafa leikið tvö tímabil í Kanada og staðið sig vel. Hann var áður í Birninum en segir ekki hafa annað komið til greina en að fara til Esju í sumar, og að ekki hafi skemmt fyrir að komast í Evrópukeppnina.

„Bestu vinir mínir eru allir í þessu liði svo það var aldrei spurning um það hvort ég færi hingað. Í Kanada kynntist maður allt öðru „leveli“ af hokkíi, lærði margt og spilaði helling af leikjum. Það var bara geggjað,“ segir Aron.

Nánar er rætt við Aron í meðfylgjandi myndskeiði sem tekið var eftir æfingu í gær, en Aron var þá nýkominn til móts við félaga sína í Serbíu eftir að hafa flogið seinna út vegna anna í námi.

Mbl.is er með Esju í Belgrad og fylgist grannt með gangi mála þar til að mótinu lýkur á sunnudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert