Esja á toppinn eftir hasar

Hjalti Jóhannsson, Esju, með pökkinn í kvöld en Alexander Medvedev ...
Hjalti Jóhannsson, Esju, með pökkinn í kvöld en Alexander Medvedev úr Birninum sækir að honum. mbl.is/Árni Sæberg

Íslandsmeistarar Esju tylltu sér í toppsæti Hertz-deildar karla í íshokkí í kvöld eftir sigur á Birninum í afar fjörugum leik, 6:2.

Eftir markalausan fyrsta leikhluta dró heldur betur til tíðinda í öðrum leikhluta. Jan Semorad skoraði tvívegis á fimm mínútna kafla fyrir Esju og í kjölfarið sauð upp úr. Aimas Fiscevas í liði Bjarnarins var vikið út úr húsi fyrir að rífa sig úr hönskunum og láta höggin dynja á Robbie Sigurðssyni hjá Esju og verður Fiscevas jafnframt í banni í næsta leik.

Við þetta hrundi algjörlega leikur Bjarnarins og Esja skoraði tvö mörk á tveggja mínútna kafla. Fyrst Konstantyn Sharapov áður en Semorad fullkomnaði þrennuna. Í þriðja leikhluta skoruðu Egill Þormóðsson og Hjalti Jóhannsson fimmta og sjötta mark Esju með 19 sekúndna millibili og staðan orðin 6:0.

Eric Anderberg náði hins vegar að laga stöðuna fyrir Björninn með tveimur mörkum á síðustu fimm mínútunum eftir undirbúning Fals Guðnasonar og lokatölur 6:2.

Esja er nú með 23 stig á toppnum en SA er í öðru sæti með 21 stig með tvo leiki til góða. Björninn er í þriðja sæti með 16 stig en SR er án stiga.

Mörk/stoðsendingar Esju:

Jan Semorad 3/1
Konstantyn Sharapov 1/0
Egill Þormóðsson 1/3
Hjalti Jóhannsson 1/0
Robbie Sigurðsson 0/3
Andrej Mrazik 0/1
Petr Kubos 0/1

Mörk/stoðsendingar Bjarnarins:

Eric Anderberg 2/0
Falur Guðnason 0/2

mbl.is