Segir dómara dæma vísvitandi gegn Esju

Gauti Þormóðsson, þjálfari Esju.
Gauti Þormóðsson, þjálfari Esju. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Við vorum lélegri aðilinn í þessum leik og Björninn átti skilið að vinna. Það var ekki þess vegna sem við gengum af velli,“ sagði Gauti Þormóðsson, þjálfari Esju, í samtali við mbl.is í dag, aðspurður hvers vegna hans lið ákvað að ganga af velli, rúmri mínútu áður en leikur liðsins gegn Birninum í Hertz-deild karla í íshokkíi kláraðist á þriðjudaginn var.

„Dómarinn missti gjörsamlega stjórn á aðstæðum og ég vildi ekki að mínir menn fengju bönn fyrir frekari átök. Það var búið að setja Daniel Kolar í þriggja leikja bann sjálfkrafa fyrir að ráðast á dómara, það var þvæla. Þetta stefndi í algjört rugl sem hefur verið allt of algengt í ár, því miður, og því tók ég þessa ákvörðun.“

Kolar var dæmdur brotlegur fyrir að fella Snorra Gunnar Sigurðsson einn dómara leiksins en Gauti segir það vera slys, sem báðir aðilar hlógu að. Að lokum var Kolar hins vegar dæmdur í þriggja leikja bann. 

„Þeir rekast saman og hlæja að því. Kolar hjálpar honum upp og svo allt í einu er hann dæmdur í þriggja leikja bann. Þá missti hann stjórn á sér og ógnaði dómaranum. Hann á þriggja leikja bannið skilið út af því.“

Dómarinn harður Bjarnarmaður og umdeildur

Gauti ber Snorra ekki vel söguna og bendir á að hann sé harður Bjarnarmaður og umdeildur dómari. Hann segir Snorra vísvitandi dæma gegn Esju og að treyjan hans sé hengd upp í rjáfrum í Egilshöll. 

„Það var smá kýtingur stuttu áður og allt í einu hendir dómarinn Jan Semorak, besta leikmanni deildarinnar, af velli, þótt hann hafi ekki verið nálægt atvikinu. Dómarinn vissi hvað hann var að gera þar, því hann henti Agli [Þormóðssyni] og Kolar líka út af. Án þeirra erum við bitlausir í sókninni. Dómarinn vissi það vel enda Bjarnarmaður sem er m.a. stofnandi Bjarnarins. Treyjan hans hangir upp í rjáfri í Egilshöllinni og hann hefur áður verið mjög svo umdeildur.“

Gauti hefur ekki teljandi áhyggjur af orðspori Esju, en í síðustu viku voru þeir Björn Ró­bert Sig­urðar­son og Stein­dór Inga­son, leikmenn liðsins, úrskurðaðir í fjögurra ára bann fyrir lyfjamisnotkun. 

„Ég gerði mér ekki grein fyrir því að þetta yrði fjölmiðlamál, því það voru nokkrar sekúndur eftir af leiknum. Lyfjamálið er sorglegt fyrir þá sem eru í því og alveg jafnsorglegt fyrir Íshokkísambandið og það er fyrir Esju. Leikmennirnir eru jafnmikið leikmenn íslenska landsliðsins og þeir eru leikmenn Esju. Ég hef ekki áhyggjur af orðsporinu, ég held öllum sé nokkuð slétt sama um eitthvert hokkílið niðri í bæ.“

Esju var dæmdur 5:0-ósigur og fékk auk þess 100.000 kr. sekt fyrir atvikið. Gauti viðurkennir að ákvörðunin um að ganga af velli hafi ekki verið sérlega skynsamleg. 

„Okkur var dæmdur 5:0-ósigur, fengum 100.000 kr. í sekt og Daniel Kolar fékk þriggja leikja bann. Við sluppum vel út úr því, þar sem þetta stefndi í slagsmál og vitleysu. Það var mikill hiti og miklar tilfinningar á milli liðanna. Þetta var ákvörðun sem ég tók, sem eftir á að hyggja var kannski ekki rétt ákvörðun en við stöndum og föllum með því,“ sagði Gauti að lokum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert