Eva María og Robbie sköruðu fram úr á svellinu

Eva María Karvelsdóttir í leik gegn Tyrklandi á HM í …
Eva María Karvelsdóttir í leik gegn Tyrklandi á HM í mars. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Eva María Karvelsdóttir úr SA og Robbie Sigurðsson úr UMFK Esju hafa verið valin íshokkíkona og íshokkímaður ársins 2017.

Í rökstuðningi Íshokkísambandsins vegna valsins segir meðal annars:

Eva María er vel að þessu komin enda frábær leikmaður í alla staði. Hún spilar með Ásynjum í Skautafélagi Akureyrar og hefur um árabil spilað með landsliði Íslands í íshokkí. Eva María hlaut þann eftirsótta heiður að vera valin besti varnarmaður á heimsmeistaramótinu sem haldið var af Alþjóðaíshokkísambandinu á Akureyri í febrúar 2017 þar sem fjöldi þjóða var saman kominn með úrvalsleikmenn. Eva María er fyrirmynd margra ungra leikmanna og er íshokkíhreyfingunni á Íslandi til mikils sóma.

Robbie er fæddur 18. október 1993 og hefur um árabil leikið á Íslandi í meistaraflokki með frábærum árangri. 2014-2017 með Skautafélagi Reykjavíkur og svo núverandi tímabil með Umfk Esju. Árin þar á undan stundaði Robbie íshokkí í Bandaríkjunum, meðal annars í Pennsylvaniu og Massachusetts. Robbie lék með landsliði Íslands 2016 og 2017, og stefnir á þátttöku á heimsmeistaramóti Alþjóðaíshokkísambandsins í Hollandi nú í apríl 2018. Robbie er þekktur fyrir baráttu sína og vinnusemi inni á ísnum ásamt því að vera góður liðsfélagi og ávallt tilbúinn til að taka þátt í landsliðsverkefnum.

Robbie Sigurðsson á ferðinni í leik með Esju í Evrópukeppni …
Robbie Sigurðsson á ferðinni í leik með Esju í Evrópukeppni félagsliða í haust. Ljósmynd/Srdjan Stevanovic
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert