Esja á toppinn með öruggum sigri

Robbie Sigurðsson skoraði 4 mörk fyrir Esju í kvöld.
Robbie Sigurðsson skoraði 4 mörk fyrir Esju í kvöld. Ljósmynd/Srdjan Stevanovic

Íslandsmeistarar Esju í íshokkíi karla unnu öruggan sigur á Skautafélagi Reykjavíkur, 9:2, í fyrsta leik ársins í Hertz-deildinni í Skautahöllinni í Laugardal í kvöld.

Esja vann fyrsta leikhluta, 2:0, annan, 2:1, og þann þriðja og síðasta, 5:1, þá virtust leikmenn Skautafélagsins hafa að mestu lagt niður vopnin.

Robbie Sigurðsson skoraði fjögur af mörkum Esju, Andrej Mrazik tvö, og þeir Ólafur Björnsson, Egill Þormóðsson og Konstantyn Sharapov eitt mark hver. Sölvi Atlason og Viktor Svavarsson skoruðu mörk Skautafélags Reykjavíkur.

Esja komst með þessu í efsta sætið með 36 stig en SA Víkingar eru með 35 stig og eiga tvo leiki til góða. Björninn er með 25 stig en SR er enn án stiga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert