„Gauti er bara krabbamein og rotta“

Jónas Breki Magnússon í leik með íslenska landsliðinu.
Jónas Breki Magnússon í leik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er bara íshokkíleikur. Vanalega þegar maður skorar sex mörk þá vinnur maður leik en þeir skoruðu sjö. Þetta var jafn leikur og við vorum miklu betri í annarri lotu en þeir miklu betri í þriðju,“ sagði Jónas Breki Magnússon, fyrrverandi landsliðsmaður í íshokkíi, eftir 7:6-tap Bjarnarins gegn Esju í Hertz-deild karla í kvöld. Jónas Breki var liðsstjóri Bjarnarins í leiknum, en hann er búinn að leggja skautana á hilluna.

Björninn gaf út yfirlýsingu á dögunum um að Jónas væri genginn í raðir félagsins, en hann var aðeins liðsstjóri í þessum eina leik. Jónas heldur aftur til Danmerkur, þar sem hann er búsettur, í fyrramálið.  

„Ég er löngu hættur að spila, ég veit ekki hvaða fréttamennska þetta var um daginn,“ sagði hann og hló og hélt áfram. „Þetta átti að vera létt grín í fólkinu. Ég átti að vera liðsstjóri til að peppa mennina upp í mikilvægum leik. Það var ekki nóg og ég fer aftur til Danmerkur í fyrramálið. Ég kom bara í þennan leik.“

Jónas setti inn facebookfærslu fyrir áramót þar sem hann kallaði Gauta Þormóðsson, þjálfara Esju, og föður hans, Þormóð, krabbamein fyrir íslenskt íshokkí. Hann fór ekki í felur er umræðuefnið snerist að þeim. 

„Ég þurfti aðeins að ræða við Þormóðsgengið, sem er krabbamein fyrir íshokkíið á Íslandi. Þormóður, faðir Gauta Þormóðssonar, eyðilagði SR-klúbbinn. Hann lagði allt starf og alla vinnu í meistaraflokkinn og hugsaði ekkert um barnastarfið. Þarna kom risastór hola sem gerir það að verkum að okkur vantar landsliðsmenn á vissum aldri. Við vorum bara með þrjá klúbba, það var engin Esja til þá. Ef þú tekur einn klúbb frá og ert bara með meistaraflokk og ekkert barnastarf í mörg ár, þá gerist þetta og það eyðileggur fyrir öllum liðunum, það er eitt dæmið.

„Gauti var í landsliðinu einu sinni og hann skipti landsliðinu í tvo hópa; það var hans flokkur og svo restin. Það var þannig á tímabili að annaðhvort var hann í landsliðinu eða ég. Ég sagði einfaldlega að annaðhvort væri ég í landsliðinu eða Gauti, svo Gauti var auðvitað rekinn. Þetta er svo mikil rotta og svo mikið krabbamein. Gamli var auðvitað alltaf með.“

Hann segir samtalið við Gauta í dag ekki hafa verið á rólegu nótunum.

„Ég þoli ekki þennan gæja, þetta var „fuck you“. Hann vildi eitthvað ræða þetta en hann er bara rotta sem stingur alla í bakið. Þú getur örugglega ekki sett mikið af þessu í Morgunblaðið,“ sagði Jónas Breki hlæjandi. 

Esjumenn gengu af velli þegar rúm mínúta var eftir af síðasta leik liðanna. Jónas var ekki sáttur við það. Hann bætti einnig við að hann hefði verið búinn að berja þrjá í leiknum í dag. 

„Stundum eru slagsmál en þú labbar ekki út af leik. Þú tekur þessu eins og maður, tapar og heilsar mönnum eftir leik. Það vantaði kannski meiri slagsmál í þetta í dag; ef ég hefði verið inná væri ég búinn að berja þrjá,“ sagði Jónas Breki að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert