Hádramatík í Egilshöllinni

Ingþór Árnason í liði Bjarnarins í baráttu við Pétur Maack …
Ingþór Árnason í liði Bjarnarins í baráttu við Pétur Maack hjá Esju í kvöld. mbl.is/Hari

Esja vann hádramatískan 7:6-sigur á Birninum í Hertz-deild karla í íshokkíi í Egilshöllinni í kvöld. Björninn komst í 6:3 en Esja gafst ekki upp og skoraði sigurmarkið, sex sekúndum fyrir leikslok. 

Egill Þormóðsson, leikmaður Esju, skoraði úr fyrsta alvörufæri leiksins á 6. mínútu. Hann lék þá skemmtilega á Inga Hafdísarson í marki Bjarnarins áður en hann lagði pökkinn í netið. Björninn gafst svo sannarlega ekki upp og var staðan orðin 1:1 fimm mínútum síðar er Andri Helgason skoraði fyrir Björninn sem var manni færri.

Það tók Esju aðeins tvær mínútur að komast aftur yfir. Andrej Mrazik skoraði þá eftir góðan undirbúning Arons Knútssonar. Sem fyrr gafst Björninn ekki upp og sá Kristján Albert Kristinsson til þess að staðan var 2:2 eftir fyrsta leikhluta. Á 16. mínútu vann hann pökkinn í vörninni, fór yfir allan völlinn, lék á tvo varnarmenn og skoraði glæsilegt mark.

Björninn tók völdin í 2. leikhluta. Bergur Einarsson, Artjoms Dasutins og Falur Guðnason skoruðu allir á sex mínútna kafla á fyrstu tíu mínútum leikhlutans og komu Birninum í 5:2. Robbie Sigurðsson lagaði stöðuna í 5:3 skömmu síðar, en Falur skoraði sitt annað mark á 35. mínútu og var staðan því 6:3 fyrir síðasta leikhlutann.

Undir lok leikhlutans hitnaði í mönnum og eftir slagsmál var Daníel Þór Jóhannssyni, markmanni Esju, vikið úr húsi fyrir ljót högg á Brynjari Bergmann, leikmanni Bjarnarins. Daníel stökk þá á Brynjar og lét höggin dynja á honum og ætla má að Daníel fái þriggja leikja bann. Tveir leikmenn Bjarnarins fengu brottvísun fyrir atvikið og þrír leikmenn Esju. Síðast er liðin mættust sauð einnig upp úr og er mikill hiti á meðal þeirra. 

Esja byrjaði síðasta leikhlutann vel og Robbie skoraði sitt annað mark á 45. mínútu og minnkaði muninn í 6:4. Jan Semorád minnkaði svo muninn enn frekar á 51. mínútu og allt stefndi í æsispennandi lokamínútur. Robbie skoraði svo þriðja markið sitt, sex mínútum fyrir leikslok og jafnaði í 6:6. Petr Kubos skoraði svo sigurmark Esju, sex sekúndum fyrir leikslok og þar við sat. 

Björninn 6:7 Esja opna loka
60. mín. Falur Guðnason (Björninn) 2 mín. brottvísun Virtist missa kylfuna og taka utan um leikmann Esju. 40 sekúndur eftir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert