Andlát: Jim Jóhannsson

Jim Jóhannsson.
Jim Jóhannsson. AFP

Jim Jóhannsson, landsliðseinvaldur Bandaríkjanna í íshokkí, er látinn aðeins 53 ára gamall. Jim átti ættir að rekja til Íslands en afi hans fluttist vestur um haf til Kanada eins og margir Íslendingar gerðu á 19. öld.

Jim fæddist hinn 10. mars 1964 í Rochester í Minnesota-ríki í Bandaríkjunum. Afi hans í föðurætt hét Jóhann Tryggvi Jóhannsson og fluttist hann til Edmonton í Kanada þar sem íshokkííþróttin er einmitt afar vinsæl. Jóhann hafði fæðst á Akureyri á jóladag 1886. Faðir hans var Gunnlaugur Frímann Jóhannsson úr Skíðadal sem fæddist 22. maí 1862.

Vestur-Íslendingurinn Jim Jóhannsson var mjög öflugur leikmaður á sínum tíma og keppti fyrir bandaríska landsliðið á tvennum Vetrarólympíuleikum. Annars vegar í Calgary árið 1998 og í Albertville 1992. Áður hafði hann orðið háskólameistari í NCAA með University of Wisconsin. Á árunum 1987-1994 lék hann 374 leiki sem atvinnumaður í IHL-deildinni og skoraði 119 mörk.

Árið 2007 var Jim gerður að landsliðseinvaldi Bandaríkjanna. Hjá Bandaríkjamönnum er hefðin þannig að landsliðseinvaldurinn velur landsliðshópinn og þjálfarana sem stýra liðinu á HM og ÓL. Á meðan hann gegndi því starfi skiluðu bandarísku A-landsliðin og U-20 ára landsliðin alls 64 verðlaunum í hæsta styrkleikaflokki.

Jim á fjöldann allan af skyldfólki á Íslandi, til að mynda á Akureyri og á Dalvík, þótt ef til vill flokkist það ekki undir náinn skyldleika. 

Viðar Garðarsson, sem árum saman var formaður Íshokkísambands Íslands, kynntist Jim ágætlega í störfum sínum í tengslum við íþróttina. Viðar segir Jim hafa verið áhugasaman um Íslandstengingar sínar og hafi síðast heimsótt land og þjóð sumarið 2014.

Jim andaðist í svefni á heimili sínu í Colarado-ríki í Bandaríkjunum 21. janúar.

Jim minnst af NHL-deildinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert