Ásynjur unnu aftur í vítakeppni

Ásynjur unnu í vítakeppni.
Ásynjur unnu í vítakeppni. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Ásynjur höfðu betur gegn Ynjum, 4:3, í Hertz-deild kvenna í íshokkí í kvöld eftir æsispennandi leik. Staðan eftir venjulegan leiktíma og framlengingu var 3:3 og því réðust úrslitin í vítakeppni þar sem Ásynjur tryggðu sér sigur.

Ásynjur byrjuðu með látum og Anna Ágústsdóttir skoraði fyrsta markið eftir aðeins 17 sekúndur og reyndist það eina mark 1. leikhluta. Ásynjur bættu við tveimur mörkum í 2. leikhluta. Fyrst skoraði Birna Baldursdóttir og síðan Eva Karvelsdóttir og staðan orðin 3:0. 

Ynjur neituðu hins vegar að gefast upp. Sunna Björgvinsdóttir minnkaði muninn, fimm mínútum fyrir lok 2. leikhluta. Hún gerði sér svo lítið fyrir og skoraði tvö mörk í 3. leikhluta og jafnaði leikinn í 3:3.

Í vítakeppninni klikkuðu liðin á fyrstu tilraunum sínum. Sarah Smiley skoraði þá fyrir Ásynjur og Silvía var enn og aftur á ferðinni og jafnaði. Ásynjur brenndu af næsta víti sínu og Ynjur næstu tveimur. Sarah Smiley skoraði úr næsta víti fyrir Ásynjur og skoraði sigurmarki Ásynja. Ásynjur hafa því sigrað Ynjur tvívegis í vítakeppni á leiktíðinni. 

Ásynjur eru í toppsætinu með 25 stig og Ynjur í 2. sæti með 23 stig í spennandi toppbaráttu. SR/Björninn er á botninum án stiga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert