Esja lagði Akureyringa í vítakeppni

Frá leik Esju og Bjarnarins í Skautahöll Reykjavíkur.
Frá leik Esju og Bjarnarins í Skautahöll Reykjavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Íslandsmeistarar Esju styrktu stöðu sína í toppsæti Hertz-deildar karla í íhokkíi með heimasigri á SA í kvöld. Staðan eftir venjulegan leiktíma og framlengingu var 3:3 og því réðust úrslitin í vítakeppninni þar sem Esjumenn voru sterkari.

Daniel Kolar kom Esju yfir á 2. mínútu leiksins en Jussi Sipponen jafnaði sex mínútum síðar. Robbie Sigurðsson kom Esju aftur yfir á 10. mínútu en aftur jöfnuðu SA-menn með marki Jordan Steger og var staðan 2:2, eftir fjörugan 1. leikhluta. 

2. leikhluti var rólegri, en Petr Kubos skoraði eina mark hans og kom Esju í 3:2. Jussi Sipponen skoraði sitt annað mark og jafnaði í 3:3 með eina marki 3. leikhlutans og því varð framlengt. Ekkert var skorað í framlengingu. 

Andri Mikaelsson skoraði úr fyrsta víti SA-manna en Robbie Sigurðsson jafnaði úr næsta víti. Eftir nokkur mislukkuð víti í röð var það Daniel Kolar sem skoraði og tryggði Esju sigur. Með sigrinum náði Esja fimm stiga forskoti á SA á toppi deildarinnar, en SA er átta stigum á undan Birninum sem er í 2. sæti. 

Í Hertz-deild kvenna unnu Ásynjur öruggan 9:3-sigur á Reykjavík í Egilshöll. Birna Baldursdóttir skoraði þrjú mörk fyrir Ásynjur og Alda Arnarsdóttir tvö. Kristín Ingadóttir gerði tvö marka Reykjavíkur. Með sigrinum náðu Ásynjur fimm stiga forskoti á toppi deildarinnar, en Reykjavík er á botninum án stiga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert