Þögn þeirra norðurkóresku

Lee Jingyu, leikmaður Kóreu, í leiknum gegn Svíum.
Lee Jingyu, leikmaður Kóreu, í leiknum gegn Svíum. AFP

Suður- og Norður-Kórea tefla fram sameiginlegu kvennaliði í íshokkí á Vetrarólympíuleikunum sem nú standa yfir í Suður-Kóreu. Þykja það talsverð tíðindi í ljósi samskipta þjóðanna frá því í Kóreustríðinu um miðja síðustu öld. Blaðamönnum á leikunum gengur illa að fá þá leikmenn sem tilheyra Norður-Kóreu í viðtöl. 

Leikmennirnir tólf sem koma frá Norður-Kóreu hafa ekki gefið kost á viðtölum í svokölluðu mixed zone að leikjunum loknum. Mixed zone er alþjóðlegt heiti yfir það svæði þar sem fjölmiðlamenn geta reynt að ná tali af íþróttafólki á leið þess til búningsherbergja eftir keppni. Einn þessara leikmanna hefur þó verið sendur á blaðamannafund en það virðist vera eina tilfellið þar sem fjölmiðlamenn hafa fengið viðbrögð frá þeim norður-kóresku. 

Hin kanadíska Sarah Murray er þjálfari liðsins og hún hefur greint frá því að fulltrúar yfirvalda í Norður-Kóreu fylgi sínum leikmönnum hvert fótmál meðan á leikunum stendur. Murray tekur þó fram að þeir hafi ekki haft truflandi áhrif á æfingar eða fundi liðsins. Fylgist einungis með því sem fram fer. 

Murray segir jafnframt engin vandamál vera til staðar innan hópsins því leikmönnum hafi tekist að skapa góðan liðsanda. Vinskapur virðist vera að takast með leikmönnunum sem hingað til hafa aldrei haft nein samskipti utan þess að hafa mögulega mæst á ísnum, til dæmis með yngri landsliðum.

Fyrir utan æfingar og liðsfundi snæða leikmenn liðsins einnig saman. Samskiptin virðast að öðru leyti takmörkuð því þær norður-kóresku gista á öðrum stað í ólympíuþorpinu. 

Stuðningsmenn sameinaðs liðs Kóreu með fána sem á stendur: Við …
Stuðningsmenn sameinaðs liðs Kóreu með fána sem á stendur: Við erum eitt. AFP

Eftirvænting fyrir leikinn gegn Japan

Kórea hefur fengið tvo skelli í keppninni til þessa en liðið tapaði 8:0 fyrir bæði Sviss og Svíþjóð. Rétt er þó að geta þess að þar eru á ferðinni lið sem eiga að geta keppt um verðlaun á leikunum. Búist er við því að stemningin verði talsverð í næsta leik kóreska liðsins því þá mun liðið takast á við gömlu herraþjóð sína: Japan.

Kvennalið S-Kóreu er í B-riðli 1. deildar á heimsmeistaramótinu í íshokkí en N-Kóreu er í A-riðli 2. deildar á HM í ár. Voru þau í sömu deild í fyrra en S-Kórea komst upp um deild með frammistöðu sinni. Lið Kóreu er því veikara á pappírum en þjóðirnar úr efstu deild HM en eins og venja er á Ólympíuleikum fá gestgjafar þátttökurétt. 

Þess má geta til fróðleiks að Ísland hefur mætt Norður-Kóreu á HM yngri landsliða í íshokkí í gegnum árin. Íslendingar höfðu þá sömu sögu að segja hvað eftirlitið varðaði. Í för með Kóreu voru fulltrúar yfirvaldsins sem fylgdust grannt með. Í eitt skiptið tók N-Kórea aukaherbergi á liðshótelinu á HM þegar Íslendingar voru á sama hóteli. Fylgdarliðið fjarlægði þá sjónvarpstækin úr herbergjum n-kóreska hópsins og kom þeim fyrir í aukaherberginu. Vestrænt sjónvarpsefni þótti væntanlega ekki heppileg afþreying fyrir Norður-Kóreubúa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert