Rússar fögnuðu eftir framlengingu

Rússar fagna sigrinum í morgun.
Rússar fagna sigrinum í morgun. AFP

Rússar sigruðu Þjóðverja, 4:3, í framlengdum úrslitaleik í íshokkí karla á Vetrarólympíuleikunum í Pyeongchang í morgun.

Nikita Gusev jafnaði fyrir Rússa í 3:3 þegar 56 sekúndur voru til leiksloka og knúði fram framlenginguna og þar var það Kirill Kaprizov sem skoraði sigurmarkið eftir rúmar níu mínútur, eftir sendingu frá Gusev.

Þetta er í fyrsta sinn sem Rússar vinna ólympíugullið í íshokkí karla en áður var lið Sovétríkjanna afar sigursælt í greininni. Kanadamenn höfðu sigrað á síðustu tveimur leikum. Þjóðverjar náðu hins vegar sínum besta árangri í sögunni með því að komast í úrslitaleikinn en þeir höfðu áður náð bronsverðlaunum árin 1932 og 1976.

Svíar unnu krulluna

Svíar sigruðu Suður-Kóreu af öryggi, 8:3, í úrslitaleiknum í krullu kvenna sem fram fór í nótt. Þá unnu Þjóðverjar tvöfaldan sigur, gull og silfur, á fjögrra manna bobbsleðum. Lokagreinin, 30 km skíðaganga, stendur nú yfir en lokaathöfn leikanna hefst klukkan 11 að íslenskum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert