„Gekk lítið hjá okkur“

Esjumenn fagna marki í kvöld. Þau voru ekki nægilega mörg …
Esjumenn fagna marki í kvöld. Þau voru ekki nægilega mörg að þessu sinni. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Andri Freyr Sverrisson er leikmaður UMF Esju en lið hans er nú að berjast við SA Víkinga um Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí. Fyrsti leikur úrslitanna fór fram í kvöld og voru það SA Víkingar sem fögnuðu sigri, 8:5.

Þetta var jafn leikur lengstum en SA var einu skrefi á undan. Áttu von á einhverju svipuðu í næstu leikjum?

„Ég hugsa að þetta verði mjög jafnt fram í síðasta leik. Við misstum einbeitinguna á stuttum kafla í öðrum leikhlutanum og þá skoruðu þeir þrjú mörk í röð. Það var gott að ná að minnka muninn fyrir þriðja leikhlutann en þar gekk lítið hjá okkur og SA tók aftur völdin. Við náðum því miður ekki að minnka muninn fyrr en í blálokin og það var full seint. Þetta bara gekk ekki hjá okkur í kvöld.“

Það er stutt á milli leikja og næsti leikur er eftir tvo daga. Hvaða áhrif heldur þú að það hafi á liðin að spila svona stíft? Það er vitað að gamlingjarnir í liði SA þola þetta álag ekki jafnvel og ungir og sprækir menn.

„Þeir verða allir klárir í þann leik. Það má ekki gleyma því að SA á marga unga leikmenn sem eru að spila vel og sjá um að skora megnið af mörkunum þeirra. Jóhann Már var t.a.m. drullugóður í kvöld og útlendingarnir þeirra eru mjög sterkir. Það er eins hjá okkur. Það eru svona ákveðnir menn sem eru að skora mest og eru mest áberandi. Það verða bæði lið vel stemmd á fimmtudag,“ sagði Andri Freyr að skilnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert