Markaregn á Akureyri

Akureyringar fagna í kvöld.
Akureyringar fagna í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Fyrsti leikur SA Víkinga og Esju í úrslitakeppni Hertz-deildarinnar í íshokkí karla fór fram á Akureyri í kvöld. Þrjá sigurleiki þarf til að geta hampað Íslandsmeistaratitlinum.

Liðin mættust átta sinnum í deildarkeppninni í vetur og skiptu með sér sigrum. Fjórir á lið og tveir hjá hvoru liði komu eftir framlengingu. Það mátti því búast við miklum hasar og jöfnum leik í kvöld.

Varð það einmitt raunin þar sem mörkunum rigndi hreinlega á kafla. SA var með undirtökin lengstum og unnu Akureyringar leikinn 8:5.

Fyrsti leikhluti var afar jafn og eftir góðar upphafsmínútur hjá SA þá voru það Esjumenn sem skoruðu fyrsta markið. Tékkinn Jan Semorad lagði pökkinn í markið af stuttu færi eftir darraðardans fyrir framan mark SA. Heimamenn svöruðu um hæl eftir snarpa sókn. Henni lauk með því að Kanadamaðurinn Bart Moran komst einn í gegn og skoraði hann af fádæma öryggi.

SA komst yfir í öðrum leikhluta með marki frá kántrírokkaranum Rúnari Frey Rúnarssyni og var staðan 2:1 lengi vel. Þá komu sex mörk á síðustu fimm mínútum leikhlutans. Jan Semorad jafnaði leikinn fyrir Esju en SA svaraði með þremur mörkum á rúmri mínútu. Jussi Sipponen, Bart Moran og Jóhann Már Leifsson skoruðu þau og virtust Esjumenn alveg slegnir út af laginu. Svo var þó ekki og mörk frá Robbie Sigurðsson og Daniel Kolar á lokamínútunum breyttu vonlítilli stöðu í 5:4 fyrir lokaleikhlutann.

Markaregninu var ekki lokið og strax eftir hlé var komið mark hjá SA. Jóhann Már Leifsson náði að koma pökknum í mark eftir mikið bras á vörn Esjumanna. Næsta mark var einnig frá heimamönnum en það kom þegar níu mínútur voru eftir. Andri Már Mikaelsson skoraði eftir laglegan samleik og kom SA í 7:4. Virtist allt púður úr Esjumönnum eftir þetta mark og fátt markvert gerðist fram að leikslokum. Esjumenn tóku markvörðinn sinn út af og uppskáru mark en fengu svo annað í andlitið skömmu síðar og lauk því leiknum með 8:5 sigri SA Víkinga.

Næsti leikur er á fimmtudag í Skautahöllinni í Laugardag.

Mörk/stoðsendingar:

SA Víkingar: Jóhann Már Leifsson 2/3, Bart Moran 2/1, Jón Benedikt Gíslason 0/3, Rúnar Freyr Rúnarsson 1/1, Sigurður Sveinn Sigurðsson 1/1, Jussi Sipponen 1/1, Andri Már Mikaelsson 1/0, Jordan Steger 0/1, Elvar Jónsteinsson 0/1.

UMF Esja: Jan Semorad 2/1, Robbie Sigurðsson 1/2, Egill Þormóðsson 1/2, Andrej Mrazik 0/2, Daniel Kolar 1/0, Petr Kubos 0/1, Andri Freyr Sverrisson 0/1.

SA 8:5 Esja opna loka
60. mín. Rúnar Freyr Rúnarsson (SA) 2 mín. brottvísun 8:5 -Markvörður SA á þetta brot en Rúnar tekur refsinguna út.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert