„Þeir eru allir að hlusta á mig“

Það var hart tekist á í kvöld.
Það var hart tekist á í kvöld. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Rúnar Freyr Rúnarsson, íshokkíleikmaður SA Víkinga, var rifinn í spjall eftir að lið hans hafði lagt UMF Esju að velli í fyrsta leik úrslitakeppninnar í kvöld, 8:5. Rúnar Freyr hefur ekki spilað í nokkur ár og er meira þekktur í dag sem tónlistarmaður. Kallinn blés vart úr nös í leikslok enda búinn að hvíla vel í refsiboxinu á lokamínútunum.

Þú ert kominn í fantaform á ný og ferillinn er að byrja upp á nýtt.

„Ég er nú ekki i fantaformi en ég er í betra formi núna en oft áður.“

Þú ert búinn að vera fjarri ísnum í nokkur ár. Hvað kom til að þú byrjaðir aftur?

„Það voru meiðsli hjá liðinu og það vantaði mannskap á æfingar. Ég var sjálfur að reyna að koma mér í form svo þetta hentaði bara vel. Ég byrjaði að skauta til að létta mig og svo er þetta bara svo gaman og erfitt að hætta.“

Hvernig var þessi leikur í þínum huga?

„Mér fannst við betri aðilinn meirihlutann af leiknum. Við vorum svo að gera barnaleg mistök sem gaf þeim færi á að skora. Við fengum á okkur of mikið af mörkum manni færri. Þegar við vorum fimm á fimm þá fannst mér við heilt yfir vera betri. Við þurfum samt að spila miklu betri leik á fimmtudaginn ef við ætlum að vinna.“

Og hvernig líst þér á að spila með tveggja daga millibili næstu daga? Þið eruð nokkrir gamlingjar hjá SA.

„Þjálfarinn okkar er sniðugur og notar menn bara eins og þeir þola. Ég fæ alltaf góða hvíld þegar hann sér að ég er farinn að blása eins og hvalur. Ég hef engar áhyggjur af leikjunum. Það eru frekar ferðalögin sem gætu setið eitthvað í manni.“

Setjið þið þá ekki bara Rúnar F í spilarann og hækkið í botn?

„Það er góð spurning. Annars eru flestir með eitthvað í eyrunum og ég er viss um að þeir eru allir að hlusta á mig,“ sagði Rúnar Freyr og skellihló.

Rúnar Freyr Rúnarsson.
Rúnar Freyr Rúnarsson. Ljósmynd/Þórir Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert